Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 03. júní 2011, kl. 11:38:03 (0)


139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:38]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þessi umræða hefur náttúrlega snúist út í þennan klassíska útúrsnúning um eitthvað allt annað en það sem ég sagði. Ég hef aldrei talað um að menn með þekkingu á atvinnulífinu ættu ekki að tjá sig eða aðrir með sérfræðiþekkingu á ákveðnum hlutum ættu ekki að tjá sig í púltinu. Ég hef aldrei sagt það, aldrei, og það er bara rangt að halda því fram að ég hafi sagt það.

Það sem ég sagði var að mér finnst ekki við hæfi að þingmenn sem hafa persónulega beina fjárhagslega hagsmuni af þeirri löggjöf sem er hér að fara í gegn, eða ekki að fara í gegn, taki þátt í umræðum. Það er ekki andstætt hagsmunaskráningu eða hæfisreglum þingsins, ég veit það, en mér finnst það sjálfum ekki við hæfi. Mér finnst það algjörlega óeðlilegt að menn sem eiga mjög mikið undir fjárhagslega séu hér í púlti að tala gegn frumvörpum sem hafa bein áhrif á þeirra fjárhagslegu hagsmuni. Þannig er það bara og þar með er ég ekki að vega að Ásbirni Óttarssyni (Forseti hringir.) persónulega. Ég þekki hann úr starfi hans í fjárlaganefnd og met hann mikils (Forseti hringir.) en mér finnst ekki við hæfi að hann taki þátt í þessari einstöku umræðu.