Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 03. júní 2011, kl. 12:17:22 (0)


139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:17]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að hv. þingmaður treysti sér ekki til að svara spurningum mínum og sé með útúrsnúninga um hvort ég hafi lesið frumvarpið með sömu frjálshyggjugleraugum og hann. Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji að framsalið sem sett var á smábátaútgerðina hafi verið sjávarbyggðunum til góða og hvort hann telji að sú samþjöppun sem þá varð í greininni hafi orðið sjávarbyggðunum til góða. Ég spyr líka hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér að mögulegt sé að nýliðar komist að í greininni miðað við það kerfi sem er og þann mikla fjármagnskostnað sem þarf til svo menn komist inn í greinina eins og hún er í dag.