Aðstoð við bændur á gossvæðinu

Föstudaginn 03. júní 2011, kl. 13:50:27 (0)


139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

aðstoð við bændur á gossvæðinu.

[13:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í kjölfarið á gosinu í Eyjafjallajökli í fyrra tóku allir saman höndum, samstaða þjóðarinnar kom fram og meðal annars brást ríkisstjórnin skjótt við og greip til þeirra ráðstafana sem beðið var um. Meðal annars var Bjargráðasjóði heimilað að fara inn og taka ákvarðanir, skoða kostnað við að bæta tjón og annað í þeim dúr.

Nú bregður svo við eftir gosið í Grímsvötnum að Bjargráðasjóður getur ekkert gert þar sem ríkisstjórnin hefur ekki enn tekið ákvörðun um hvort hann skuli fara þarna inn og bregðast við því sem bregðast þarf við. Í þessu sambandi nefni ég að í fyrra tók ríkisstjórnin strax ákvörðun um að þetta væri í lagi og í kjölfarið voru settar um 190 milljónir af fjárlögum til þessa verks. Á fundi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á miðvikudagskvöldið kom fram að búið væri að greiða eða að greiddar yrðu um 160 milljónir af þessum 190.

Það kom líka fram hjá formanni Bjargráðasjóðs á íbúafundi á Klaustri viku fyrr að ríkisstjórnin væri ekki enn búin að taka ákvörðun um að Bjargráðasjóður færi þarna inn og tæki á þessu máli. Daginn eftir, þ.e. fyrir rúmri viku, á föstudeginum, fékk ríkisstjórnin í hendur skýrslu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra þar sem farið var yfir alla þessa þætti. Ég hélt satt best að segja að í kjölfarið á þeim fundi, þ.e. strax sama dag, mundi ríkisstjórn taka sambærilega ákvörðun og hún tók í fyrra í kjölfarið á Eyjafjallagosi, eða þá fljótlega í þessari viku. Eftir því sem ég best veit var þó ekki búið að taka þessa ákvörðun á miðvikudaginn var, í fyrradag. Kannski var hún tekin í morgun og þá væri áhugavert að fá að vita það hér því að það er mikil óvissa sem þarf að eyða (Forseti hringir.) þegar náttúruhamfarir ganga yfir.