Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 03. júní 2011, kl. 16:55:44 (0)


139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[16:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrist hv. þingmaður vera að halda því fram að málið snúist í raun fyrst og fremst um það að hafa ágreiningsefni frekar en að menn ætli sér að gera þær tilteknu og reyndar illskiljanlegu breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem boðaðar eru í frumvörpunum, þ.e. að tilgangurinn sé fyrst og fremst sá að búa til ágreining. Ég verð að viðurkenna að það er ýmislegt í atburðarásinni í kringum þetta mál, hvernig það bar að, og ég tala ekki um hvernig staðan er núna, að þingið og þingmenn eru í algerri óvissu um hvernig málið verður unnið, sem bendir til að þetta sé líklega tilfellið. En getur þá hv. þingmaður fullyrt að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn til að setja málið í sáttafarveg, reyna að vinna að því að um það skapist sem víðtækust sátt? Telur hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, raunhæfan möguleika á slíku?