Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. júní 2011, kl. 11:14:13 (0)


139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ýmislegt má segja um það frumvarp sem við ræðum en ekki er hægt að segja að það hafi fengið blendnar viðtökur utan þingsala. Þær eru ekki blendnar á neinn hátt vegna þess að viðtökurnar sem það hefur fengið eru mjög neikvæðar. Mig rekur satt að segja ekki minni til að nokkur hafi skotið skildi fyrir það utan þingsalarins, og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra talaði ekki af mjög miklum sannfæringarkrafti þegar hann mælti fyrir því. Það er kannski til marks um þann hug sem samstarfsflokkur hæstv. ráðherra ber til ráðherrans að þeir hafa í umræðum um þetta mál farið að uppnefna frumvarpið og kallað það Jónsbók, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra augljóslega til háðungar.

Frumvarpið gefur tiltekin fyrirheit í athugasemdum sem því fylgja og í ræðu hæstv. ráðherra en þegar grannt er skoðað blasir þó eftirfarandi við: Verði það að lögum mun það auka kostnað í sjávarútvegi. Það mun með öðrum orðum draga úr hagkvæmninni sem verið hefur að byggjast inn í sjávarútveginn á undanförnum árum og áratugum. Það mun fyrir vikið skila minni tekjum til ríkissjóðs til lengri tíma litið þegar upp verður staðið, bæði vegna þess að afkoma greinarinnar verður lakari og kjör fólks sem í sjávarútvegi starfar verða verri.

Talað er um að frumvarpið eigi að leiða til aukinnar nýliðunar í sjávarútvegi. Engu að síður blasir það við hverjum manni, og ég mun færa fyrir því rök á eftir, að verði það að lögum mun samþjöppun í sjávarútvegi aukast og afleiðingin af því verður byggðaröskun sem ætlunin er að leysa með einhverju pottajukki frá hæstv. ráðherra sem deila á út algerlega án aðkomu löggjafans og meira og minna eftir höfði hæstv. ráðherra á hverjum tíma. Það leigufyrirkomulag sem síðan er verið að setja á laggirnar mun hafa það í för með sér að aflaheimildir munu í vaxandi mæli færast til hinna betur stæðu og það verður hluti af þeirri samþjöppun sem ég var að nefna. Þetta er að mati allra þeirra sem sátu í sáttanefndinni svokölluðu utan stjórnarflokkanna óravegu frá þeirri niðurstöðu sem fékkst með vinnu þeirrar nefndar.

Hér er verið að vega að aflahlutdeildarkerfinu með tvenns konar hætti. Í fyrsta lagi með því að skerða smám saman aflaheimildir þannig að þær verði að lokum hluti af því sem þær eru í dag. Í dag er verið að taka um það bil 4% í þessa svokölluðu potta. Nú er ákveðið að auka þetta framlag stórlega, nærri fjórfalda það. Það er augljóst mál að þetta mun með einum eða öðrum hætti koma niður á starfandi útgerðum, ekki bara hinum voðalegu stórútgerðum sem stundum er vísað til heldur ekki síður hinum minni sem munu þola miklu verr en hinar stærri og sterkari hvers konar skerðingu af þessu tagi.

Aflahlutdeildarkerfið hefur gengið út á það, og um það vorum við sammála sem sátum í sáttanefndinni á sínum tíma, að menn njóti þess þegar vel gengur og aflakvótarnir aukast en taki líka á sig óbættar skerðingar þegar þær eiga sér stað. Þetta hefur gert það að verkum að byggst hefur inn ábyrg hugsun í fiskveiðinýtingu okkar sem er umfram það sem þekkist hjá mörgum öðrum þjóðum, og dæmi um það er auðvitað Evrópusambandið. Og nú gerist það óvænta: Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gengur í smiðju þeirra í Brussel til að taka upp fyrirmyndir að nýju fiskveiðistjórnarkerfi. Hæstv. ráðherra er með öðrum orðum með þessu að draga fram rauða dregilinn fyrir Íslendinga til að ganga í Evrópusambandið. Þessu hefði ég aldrei trúað. Ég hefði aldrei trúað því að hæstv. ráðherra mundi gera úr garði fiskveiðistjórnarkerfi sem líktist í vaxandi mæli fiskveiðistjórnarkerfi Evrópusambandsins og gerði þannig að verkum að minni fyrirstaða væri gagnvart aðildinni að því.

En hæstv. ráðherra gengur lengra. Hæstv. ráðherra telur að ekki sé nóg að gert. Hann býr til sérstakt ákvæði til viðbótar sem lýtur að fjórum fisktegundum: þorski, ýsu, ufsa og steinbít. Þar er það þannig að það á sérstaklega að skerða aflahlutdeildirnar. Það á að fara öðruvísi og með harkalegri hætti gagnvart þeim sem hafa aflaheimildir sínar í þessum fjórum tegundum. Við höfum í þessari umræðu, bæði um minna frumvarpið og það stærra, rætt um það hver sé ástæðan fyrir því að taka eigi þessar fjórar fisktegundir þessum sérstöku tökum. Það hefur ekkert gengið að fá svör fyrr en undir kvöldmat á föstudagskvöldið að hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis svaraði. Þá loksins gekk rófan. Hv. þingmaður svaraði þannig: Þetta er pólitísk ákvörðun okkar. Þá vitum við það. Það er með öðrum orðum úthugsað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna að ganga sérstaklega hart fram gegn þeim byggðum og þeim útgerðum sem byggja á þessum fjórum tegundum. Þorskveiðibyggðirnar í Norðvesturkjördæmi fá sérstaklega á lúðurinn frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og er hann aðstoðaður við það af formanni og varaformanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hv. þingmönnum Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og Ólínu Þorvarðardóttur.

Ég hélt í barnaskap mínum að um væri að ræða einhvers konar glöp, að menn hefðu ekki áttað sig á því um hvað væri að ræða. En nú hefur það verið upplýst að þetta var úthugsað plott. Þetta var hugsað nákvæmlega svona og þá vitum við að hin pólitíska stefnumótun beinist að því að veikja sérstaklega þær útgerðir sem eru háðastar þessum tegundum. Nú vitum við hvernig staðan er. Þorskstofninn okkar er sem betur fer að aukast núna og við munum örugglega, ef vel tekst til, sjá fram á aukinn aflakvóta í þorski á næstunni. Nú á sem sagt að koma í veg fyrir að þær útgerðir sem tóku á sig skerðinguna í þorskinum njóti þess. Hverjir halda menn nú að verði harkalegast fyrir þessu? Það eru nýliðarnir, það eru smábátaútgerðirnar, það eru þeir sem standa veikastir fyrir. Þar á höggið að ríða yfir.

Síðan er ætlunin að taka hluta af þeirri aukningu sem um er að ræða, og reyndar líka hluta af þeim aflaheimildum sem fást með því að skerða aflahlutdeildirnar sérstaklega, eins og kveðið er á um, og bjóða þær upp á uppboðum. Hvernig ætli eigi nú að standa að þessu? Það veit ekki einu sinni sjálfur himnafaðirinn því að þetta er allt saman óljóst. Hæstv. ráðherra hefur ekki treyst sér til að segja okkur það. Hæstv. ráðherra hefur ekki treyst sér til að ljóstra upp leyndarmálinu um það hvernig eigi að skipta þessu. Hæstv. utanríkisráðherra ætti að velta því fyrir sér hvernig ætlunin er að gera þetta. (Gripið fram í.)

Það er búið til alræðisvald fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. (Utanrrh.: Ég er hlynntur því.) Hann getur fengið að skipta þessu algerlega eftir „smag og behag“, nákvæmlega eftir því sem hann vill. Hann getur í fyrsta lagi ákveðið hvað hver einasta útgerð má bjóða mikið í. Hann getur ákveðið það án þess að fá nokkrar leiðbeiningar frá Alþingi um það. Hann getur ákveðið hvernig eigi að skipta þessu á milli tímabila og getur þess vegna haft tímabilið eina klukkustund, nú eða þá 364 daga. Hæstv. ráðherra er með öðrum orðum að leggja drögin að því að hann ráði þessu algerlega sjálfur. Hann getur líka ákveðið það hversu miklu er skipt á milli landsvæða og hæstv. ráðherra er ekkert að segja okkur með hvaða hætti hann ætlar sér að gera það. Ætlar hann til dæmis að vera rausnarlegri við þau landsvæði sem hafa orðið fyrir skerðingu í aflaheimildum? Hæstv. ráðherra nefnir það ekki. Það getur vel verið að hann vilji núna af gæsku sinni ákveða að 99% af þessu fari á höfuðborgarsvæðið, þá getur hann bara gert það. Það undrar mig að fulltrúar hinna frjálslyndari sjónarmiða innan Samfylkingarinnar — og nú horfi ég beint í augun á hæstv. utanríkisráðherra — skuli láta þessa vitleysu yfir sig ganga. Og hvað með þá útgerðarflokka sem eru algerlega óskilgreint hugtak? Við fórum yfir það í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í morgun og það veit ekki nokkur maður hvað þetta hugtak „útgerðarflokkur“ þýðir.

Síðan er komið að skilyrðum samninga. Við vitum að frumvarpið gengur út á það að gera eigi veiðiréttarsamninga til tiltekins tíma við útgerðina og ég er út af fyrir sig sammála því prinsippi en ekki útfærslu hæstv. ráðherra. Þar er sagt að setja megi það sem skilyrði að menn hafi kjarasamninga. Gott og vel, tökum það sjónarmið, ræðum það. Nú vill svo til að það er bara ein tegund útgerðar sem ekki er með kjarasamninga, þ.e. smábátar. Hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar svaraði því í andsvari við mig á föstudaginn að það væri frágangssök, það kæmi með öðrum orðum ekki til greina að gera veiðiréttarsamninga við þá sem ekki hefðu kjarasamninga. Formaður Sjómannasambands Íslands getur með öðrum orðum hallað sér aftur, krosslagt hendur og verið rólegur því að hann hefur öll spil á sinni hendi. Landssamband smábátaeigenda verður bara að sitja og standa eins og sjómannahreyfingin vill og semja upp á þau býtti sem þeim eru boðin vegna þess að ella fá þeir ekki veiðiréttarsamninga, þeir fá ekki að fara á sjóinn. Málið er bara svona einfalt.

Við vitum að þessir samningar, eins og þeir eru útfærðir í 6. gr., kalla á gríðarlega mikla óvissu. Það er rétt. Það eru margar atvinnugreinar sem búa við óvissu en sjávarútvegurinn býr við mikla óvissu af ýmsum öðrum ástæðum. Sjávaraflinn er svipull. Við vitum að stundum er erfitt að selja fiskinn. Aðstæður í náttúrunni gera það að verkum að alls konar óvissa er inngreypt í sjávarútveginn sérstaklega. En er þá á það bætandi að búa líka til pólitíska óvissu um það hvernig rekstrarumhverfinu skuli vera háttað? Það er einmitt eitt af því sem við ræddum mjög ítarlega í endurskoðunarnefndinni, sáttanefndinni, hvernig ætti að fara með samninga af þessu tagi. Allir sögð við okkur: Gætið ykkar á því sem kallað er í hagfræðinni leigjendavandinn sem er sá að þegar liðið er á veiðiréttartímabil í þessu tilviki og óvissa er um hvort fram undan sé endurnýjun samningsins þá byrjar kapphlaupið, þá byrja menn að horfa til sinna þröngu eiginhagsmuna en ekki til þeirra heildarhagsmuna sem sjávarútvegurinn okkur verður að byggjast á.

Við þekkjum dæmi um það þegar leigusamningur er að renna út í húsum að leigjendur fara að hafa minni áhuga á því og minni hagsmuni af því til dæmis að halda húsum sínum vel við og nákvæmlega sama gerist varðandi umgengnina um auðlindina. Þegar líður á þennan samningstíma og ekki er vissa um að hann verði framlengdur á almennum forsendum þá mun umgengnin versna og menn munu hætta að reyna að standa sig eins vel og þeir geta. Þess vegna er það furðulegt að þegar stjórnvöld höfðu skýrslu endurskoðunarnefndarinnar undir höndum, þar sem þetta allt saman kemur rækilega fram, þá skuli menn falla strax á prófinu í þessu einfalda atriði sem ætti að blasa við.

Síðan er hér ákvæði varðandi framsalið og menn tala mikið um að takmarka verði framsalið. Hér er gengið lengra. Hér er einfaldlega sagt að varanlegt framsal aflahlutdeildar sé óheimilt. Gáum nú að. Síðan er búið til ákveðið kerfi. Menn mega framselja eins og þeir vilja innan sinna útgerða. Gott og vel en ef menn ætla síðan að framselja aflahlutdeild sína milli útgerða, sem gæti átt sérstaklega við um minni útgerðirnar þar sem um er að ræða mann með einn bát en ekki marga báta, þá eru þeim allar bjargir bannaðar vegna þess að hér er kveðið á um að menn megi framselja þessar aflahlutdeildir, enda sé um að ræða jöfn skipti í þorskígildum talið. Þorskígildin eru til margra hluta nytsamleg en þau eru ekki neinn mælikvarði á viðskipti af þessu tagi. Við sjáum einmitt þessa dagana þau miklu vandræði sem komin eru upp hjá smábátasjómönnum sem héldu sig vera að fara í góðri trú til strandveiða en eru núna allar bjargir bannaðar af því að þeir voru í jöfnum skiptum á grundvelli markaðsverðs aflamarksins og eru í þeirri stöðu að þeir komast ekki inn í strandveiðarnar af því að þar er miðað við þorskígildin. Sú aðferð sem hér er verið að boða er með öðrum orðum sérstaklega slæm fyrir minni útgerðirnar, fyrir einyrkjana, fyrir þá sem gera út einn bát.

Það er líka mjög athyglisvert, sem væntanlega er líka hluti af hinni pólitísku niðurstöðu sem hv. þingmenn stjórnarliðsins eru að segja okkur frá, að hér er búið að girða fyrir það að þeir sem eru með krókaaflamark, þ.e. smábátarnir, geti keypt til sín aflahlutdeildir úr stóra kerfinu. Það hefur orðið til þess að efla litla kerfið. Það er sannarlega umdeilt mál en var á sínum tíma pólitísk ákvörðun til að reyna að efla þetta litla kerfi í þágu byggðanna þaðan sem litlu bátarnir eru fyrst og fremst að róa. Ég er mjög undrandi á því að þetta sé komið þarna inn með þessum hætti en auðvitað er það hluti af þessari pólitísku meðvituðu ákvörðun sem frumvarpið felur í sér.