Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 06. júní 2011, kl. 12:36:44 (0)


139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst margt ágætt í ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þó að þar gætti ákveðinna þversagna. Í grunninn skildi ég hv. þingmann á þann veg að hann væri sammála grundvallaratriðum frumvarpsins, þ.e. að rjúfa með óyggjandi hætti öll meint eignarréttarleg tengsl á auðlindinni þannig að hún sé afdráttarlaust, að því er maður getur kallað, eign í ráðstöfunarforsjá þjóðarinnar og ríkisins. Ég skil hv. þingmann á þann veg að þar séum við sammála enda er þetta eitt af grunnstefunum í frumvarpinu.

Í öðru lagi að um tímabundin veiðiréttindi sé að ræða sem séu gerð með tvennum hætti. Annars vegar er það gert með nýtingarsamningum við útgerðaraðila og hins vegar er ákveðnum hluta varið til jöfnunaraðgerða en jafnframt mjög hagkvæmra veiða. Tökum strandveiðarnar, tökum smábátaveiðarnar, tökum línuívilnunina, tökum byggðaaðgerðirnar — að við tökum ákveðinn hluta aflaheimilda til þessara aðgerða.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann ekki í raun sammála þeim grunnatriðum sem mér fannst raunar koma fram í hans máli? Horfum til þróunar síðustu ára. Menn hafa viljað hafa nánast taumlausa markaðshyggju í ráðstöfun aflaheimilda, að auðlindin væri einkavædd og færi síðan á markaðstorgið en það hefur skilað okkur mikilli óeiningu og ósátt, samþjöppun aflaheimilda og veikri stöðu byggða. Ég spyr hv. þingmann: Er hann ekki sammála mér um að sú leið gengur ekki upp? Er hann ekki sammála mér um það að aldrei verði sátt um þá leið sem farin hefur verið undanfarin ár? Er hann ekki sammála mér um að sátt náist frekar um þá leið sem ég minntist á áðan og er megintilgangur og markmið þessa frumvarps?