Úttekt á stöðu EES-samningsins

Miðvikudaginn 08. júní 2011, kl. 13:41:24 (0)


139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

úttekt á stöðu EES-samningsins.

757. mál
[13:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það liggur fyrir að bæði Liechtenstein og ekki síður Norðmenn hafa farið í mjög umfangsmikla úttekt á EES-samningnum, ekki síst eftir að hafa hlustað á mál Jonasar Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, um að samningurinn sé mjög mikilvægur fyrir Norðmenn í margþættu tilliti. Þess vegna vilji þeir kortleggja um leið hvernig hægt er að nýta það sem kemur fram í samningnum enn betur og hvernig Norðmenn geti þá hugsanlega líka hagað vinnulagi sínu til að gera samninginn sem skilvirkastan.

Ég held að við Íslendingar getum í sjálfu sér tekið undir margar hugsanir og pælingar sem Norðmenn hafa sett fram vegna EES-samningsins. Hann hefur ótvírætt skilað íslensku samfélagi mikilli hagsæld að mínu mati og var mikið framfaraskref þegar hann var samþykktur á sínum tíma. Þó verður að undirstrika að Evrópusambandið hefur líka breyst gríðarlega og kannski helsta apparatið sem var þá hvað valdamest innan Evrópusambandsins, þ.e. framkvæmdastjórnin. Hún hefur í rauninni minnkað vægi sitt. Aðrir þættir innan Evrópusambandsins eins og ráðherraráðið og ekki síst Evrópuþingið hefur fengið aukið vægi. Ekki er tekið tillit til þessa í samningnum sem slíkum.

Ég held engu að síður að þrátt fyrir Evrópusambandsumsóknina sem er í gangi — ég vona að hún verði áfram í fullum gangi þó ég verði að lýsa yfir ákveðnum áhyggjum mínum yfir því að hæstv. ráðherra hafi ekki nægilega mikinn stuðning innan ríkisstjórnarinnar. Þó að hann sé ötull maður og kraftmikill þá held ég að öllum mönnum sé ljóst að hann hefur ekki eins mikinn stuðning innan ríkisstjórnarinnar og maður hefði óskað til þess að fara af stað í þessa vegferð sem er jafnmikilvæg og að fara í umsóknarferlið gagnvart Evrópusambandinu. Gott og vel. Það er önnur umræða.

Engu að síður verðum við Íslendingar ávallt hverju sinni þrátt fyrir umsóknaraðildarferlið að gæta að hagsmunum okkar. Hagsmunir okkar tengjast ótvírætt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þess vegna verðum við að fylgja eftir þeirri umræðu sem hefur verið mjög hér í þingsal, m.a. um það hvernig þingið, hvernig stofnanir í samfélaginu geti reynt að virkja þennan samning enn betur. Hæstv. utanríkisráðherra hefur fram til þessa verið mjög ötull talsmaður þess að það verði gert.

Ég vil því spyrja í tengslum við þetta allt saman hvernig við getum gætt hagsmuna okkar og jafnvel sótt fram enn frekar, hvernig hæstv. utanríkisráðherra líti á EES-samninginn, og ekki síður hvort hann hafi hugsað sér að fara í svipaða úttekt og Norðmenn. Eða ætlar hann sér að bíða eftir því hvað kemur út úr skýrslunni frá Norðmönnum? Það er í sjálfu sér kannski ekki óeðlilegt að það verði gert. En er hæstv. ráðherra reiðubúinn að fara í jafnviðamikla úttekt og Norðmenn hafa gert á EES-samningnum?