Rekstrarstaða sauðfjárræktenda og mjólkurframleiðenda

Miðvikudaginn 08. júní 2011, kl. 14:15:31 (0)


139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

rekstrarstaða sauðfjárræktenda og mjólkurframleiðenda.

515. mál
[14:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um rekstrarstöðu sauðfjárræktenda og mjólkurframleiðenda. Fyrirspurnin hljóðar þannig:

Hyggst ráðherra bregðast við erfiðri rekstrarstöðu íslenskra sauðfjárræktenda og mjólkurframleiðenda?

Ástæða þessarar fyrirspurnar er sú að í gildi eru samningar við þessa atvinnugrein frá árinu 2009 þar sem meðal annars kemur fram að stjórnvöld ætluðu, í kjölfar efnahagshrunsins, að beita sér fyrir því að kanna skuldastöðu atvinnugreinarinnar og ráðast í aðgerðir til að leiðrétta þær skuldir og þann vanda sem þar væri fyrir.

Nú segja mér heimildir að engin vinna hafi farið fram af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í að kanna skuldastöðuna og í úrvinnslu á erfiðri skuldastöðu greinarinnar. Samkomulagið var gert árið 2009, eða var ákvæði í sauðfjársamningum árið 2009, og nú er árið 2011. Ég spyr hæstv. ráðherra:

Hvað hefur ráðuneytið verið að gera í úrvinnslu skuldamála sauðfjárræktenda og mjólkurframleiðenda?

Hyggst hæstv. ráðherra koma fram með aukin úrræði til þess að leiðrétta stöðu greinarinnar?

Ég vil líka benda á að þriðja árið í röð hafa sauðfjár- og mjólkursamningar ekki hækkað samkvæmt verðlagi. Við vitum að verðbólga hefur verið mikil á undangengnum árum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann ætli að beita sér fyrir því að búvörusamningarnir hækki samkvæmt verðlagsþróun sem ekki hefur gerst á undangengnum árum. Samhliða því hafa kjör bænda skerst að verulegu leyti vegna þess að tengingin við þróun verðlags hefur verið afnumin í þessum samningum.

Ég þarf ekki að minna á að á tímabilinu hefur áburðarverð hækkað þrefalt, olíuverð hefur hækkað tvöfalt og bændur hafa að langmestu leyti tekið þessar kostnaðarverðshækkanir á sig og skerðingar gagnvart búvörusamningum líka vegna þess að innlend matvælaframleiðsla hefur ekki hækkað mjög mikið á undangengnum árum.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann ætli sér að vinna að því að bæta kjör einnar mikilvægustu atvinnustéttar landsins með því að setja ákvæði inn í samningana þar sem tekið er mið af hækkun á verðlagi. Ég spyr hann líka hvað hann hyggist gera til að aðstoða atvinnugreinina í erfiðum skuldamálum en mér er sagt að lítið sem ekkert hafi verið gert á undangengnum árum.