Djúpborunarverkefni á jarðhitasvæðum

Miðvikudaginn 08. júní 2011, kl. 14:55:29 (0)


139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

djúpborunarverkefni á jarðhitasvæðum.

516. mál
[14:55]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hvort hægt sé að setja meiri kraft í þessar rannsóknir skal ég ekki segja en eins og ég skil málið vilja menn bíða með að fara í rannsóknarboranir eða djúpborunarholu 2 og læra fyrst af reynslunni sem verður í þeim rannsóknum sem gerðar verða á Kröfluholunni í sumar. Það skiptir máli að menn hafi allar upplýsingar sem þarf áður en ráðist er í næstu holu. Ég held að við getum sagt að menn séu að keyra verkefnið áfram á þeim hraða sem gerlegur er í ljósi þess að þeir lentu í ákveðinni fyrirstöðu með því að fara niður í kviku á 2.100 metra dýpi.

Virðulegi forseti. Ég vil líka nefna annað, af því hv. þingmaður fór aðeins frá djúpborunarverkefninu í önnur jarðhitaverkefni á Norðausturlandi, þá er ekki langt síðan ég greindi frá því hér í þingsölum að eftir tveggja ára hlé í rannsóknum yrði aldeilis blásið til sóknar í sumar. Það verður farið í töluverðar rannsóknir á svæðinu aftur af hálfu Landsvirkjunar. Þær góðu fréttir hafa líka borist að þeir ætli sér að gefa enn frekar í, þ.e. þeir lýstu því yfir í desember að mig minnir fyrst að það yrði haldið áfram með rannsóknir í sumar og núna nýverið var tekin ákvörðun um það í stjórn að leggja meira að segja í frekari rannsóknir en áætlaðar höfðu verið. Við hv. þingmaður getum deilt þeirri ánægju að Landsvirkjun ætli að halda áfram með rannsóknir þarna.

Ráðuneytið og sveitarfélögin þarna í kring eru búin að ljúka gerð nýrrar viljayfirlýsingar þar sem verið er að vinna að því að greina innviði samfélagsins svo að hægt sé að tryggja að opinber þjónusta og annað sem er að finna á svæðinu (Forseti hringir.) haldi í við þá atvinnuuppbyggingu sem fram undan er.