Svar við fyrirspurn

Miðvikudaginn 08. júní 2011, kl. 15:14:55 (0)


139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fundarstjórn.

[15:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það kom fram í svari hæstv. ráðherra að hann hefði ekki fengið upplýsingar um fyrirspurn sem ég lagði fram 31. mars. Það er talað um það að ráðherrar hafi tíu þingdaga til að svara fyrirspurnum. Undirstofnun hjá ráðherranum hefur verið að fara yfir þessi mál, stofnun sem var falið þetta verkefni í tengslum við þessi lög. Það er háalvarlegt ef þessari fyrirspurn hefur ekki verið komið á framfæri við ráðherrann og hún orðin þetta gömul. Því fer ég fram á það við hæstv. forseta að hún beiti sér fyrir því að gera ráðherranum grein fyrir því að hann á að skila svörum samkvæmt stjórnarskránni. Þegar forseti hefur undirritað fyrirspurn frá þingmanni og ekki gert athugasemd við efnisatriði hennar er fráleitt að það skuli koma fram í svörum ráðherra að hann viti ekki einu sinni af henni. Mér finnst þetta ótrúlegur málflutningur.