Erlendir fangar

Miðvikudaginn 08. júní 2011, kl. 16:53:28 (0)


139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

erlendir fangar.

838. mál
[16:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þessar áherslur í málflutningi hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það er mjög mikilvægt að við vöndum okkur í þessari umræðu því að eins og hann bendir réttilega á verður friðsamt fólk af erlendu bergi brotið sem hér er búsett iðulega fyrir áreiti þessara aðila.

Nú kynni einhver að spyrja: Er glæpahneigð ríkari í röðum þessa fólks, erlends fólks, sem hingað kemur en íslensks fólks sem hér hefur verið? Svo er ekki, alls ekki. Málið snýst ekkert um það. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, við erum að tala um erlend glæpagengi sem ryðjast til Íslands og inn í okkar samfélag. Þar kemur til kasta Schengen og möguleika okkar til að fylgjast með þeim sem hingað koma. Við erum að tala um ágang af erlendum skipulögðum glæpahópum sem hingað sækja og eiga ekkert skylt við þá friðsömu, heiðvirðu borgara frá þessum löndum sem hér starfa og eru velkomnir hér.