Stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir

Fimmtudaginn 09. júní 2011, kl. 10:56:03 (0)


139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[10:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til að bregðast við því að komið hefur upp óvissa um hvort heimilt sé fyrir einkahlutafélag að beita eignarnámsheimild þó svo að það sé í eigu Vegagerðarinnar. Til að taka af alla óvissu um það er frumvarp þetta flutt af hv. þm. Birni Vali Gíslasyni. Slík heimild var ekki í upprunalegu lögunum sem voru samþykkt þegar ákveðið var að fara í þá vegferð að stofna hlutafélag um þessar framkvæmdir.

Ég verð þó aðeins að bregðast við þeirri umræðu sem fór fram hér á undan áður en ég fjalla efnislega um þetta mál og það er ekkert skrýtið þó að menn staldri aðeins við það sem á undan er gengið. Þegar frumvörpin voru samþykkt í desember um að stofna tvö einkahlutafélög um tvær framkvæmdir, annars vegar þá sem átti að vera um Vaðlaheiðargöngin og hins vegar þá sem átti að vera um Reykjanesbraut, Vesturlandsveg og Suðurlandsveg, sem átti að vera sér hlutafélag, var lagt upp með það að lífeyrissjóðirnir mundu fjármagna verkefnið. Það upplegg byrjaði með stöðugleikasáttmálanum sem var reyndar farinn út um þúfur þegar þetta gerðist en þá var uppleggið að gera þetta með þeim hætti. Síðan í mikilli panik við afgreiðslu fjárlaga í desember, á síðustu stigum þeirrar umræðu, kom í ljós að slitnað hafði upp úr verkefninu á milli ríkisvaldsins og lífeyrissjóðanna. Það hafði verið skipuð sérstök samninganefnd eða viðtalsnefnd sem átti að semja um þetta við lífeyrissjóðina og fyrir henni fór hv. þm. Kristján Möller fyrir hönd hæstv. innanríkisráðherra. Skýringarnar sem komu voru engar. Af hverju féllu lífeyrissjóðirnir frá þessu verkefni? Þeir féllu frá því vegna þess að verkefnið var ekki nægilega sterkt að þeirra mati eða forsendur þess ekki nægilega sterkar. Var það vegna ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna á því fjármagni sem þurfti að nota í þessar framkvæmdir? Við fengum engin svör við því. Það var bara hent inn 6 milljörðum til að setja í hlutafélögin sem framlag ríkisins vegna þess að þetta hefði dottið upp fyrir.

Það sem mér hefur fundist mjög sérkennilegt í allri þessari umræðu er að ef ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna hefur verið of há að mati þeirra sem voru að semja fyrir hönd ríkisins, það getur vel verið að svo sé, (Gripið fram í.) ég veit það ekki alveg og þá spyr ég þeirrar spurningar: Þegar ríkið gefur út ríkisskuldabréf, hverjir kaupa þá þau skuldabréf? Það eru að sjálfsögðu lífeyrissjóðirnir. Ef ríkið leggur peninga í hlutafélagið til að fjármagna verkefnið og ef ávöxtunakrafan er ekki nægjanleg af hálfu lífeyrissjóðanna er niðurstaðan sú sama að mínu viti vegna þess að þá verður ríkið bara að gefa út skuldabréfið, (Gripið fram í.) sjálft ríkisskuldabréfið sem lífeyrissjóðirnir mundu kaupa. Ég hef ekki fengið botn í þetta og hef haft efasemdir um þetta og það er líka mjög óþægilegt í svona umræðu að fá ekki alveg skýr svör við ástæðunni.

Síðan þarf ég ekki að rifja það upp að mjög margir hafa gert athugasemdir við hugmyndir um veggjöld og kostnaðinn við að gera þessi mannvirki og setja mjög mikla fyrirvara við það. Þar fer fremst í flokki FÍB. Reyndar er það svo að sumir hv. þingmenn í samgöngunefnd hafa lýst andstöðu sinni við þetta mál og sagt að þeir telji að skoða þurfi málið miklu betur áður en af stað er farið.

Ég vil líka rifja upp, af því hv. þm. Björn Valur Gíslason gerir athugasemdir við að menn séu að ræða þetta hér og eigi að ræða bara nákvæmlega eignarnámsheimildina, og segja að þegar málið kom fyrst inn í þingið og fjallað var um það í samgöngunefnd var það með þeim hætti, eins og ég sagði, að það átti að stofna tvö hlutafélög. Fyrst átti reyndar að stofna eitt en síðan var ákveðið að stofna tvö og hver var ástæðan fyrir því? Hún var sú að í tilfelli Vaðlaheiðarganganna, þeirri vegaframkvæmd sem átti að fara fram þar, þyrftu hugsanlega að vera ákveðin skuggagjöld sem kallað er. Á fundum nefndarinnar með heimamönnum kom fram að þeir teldu að eðlilegt að greiða kannski 700–900 kr. eða u.þ.b. 800 kr. í gjald og ef það ætti að standa undir göngunum og gerð þeirra í ákveðinn tíma sem settur yrði upp gæti gjaldið hugsanlega þurft að vera hærra og þá gætu verið ákveðin skuggagjöld.

Það var ákveðin umræða um þetta í samgöngunefnd og þá varð niðurstaðan sú að það gæti verið eðlilegt að gera þetta með þessum hætti á þessu svæði en þá yrði tekið tillit til þess í vegafé þess fjórðungs, þ.e. Norðausturkjördæmis. Þannig var þetta rætt. Síðan var tekin ákvörðun um að stofna eitt hlutafélag til að fara í þrjár vegaframkvæmdir á Suðvesturhorninu; Vesturlandsveg, Reykjanesbraut og Suðurlandsveg. Hver var ástæðan fyrir því? Hún var sú að ef menn ætluðu að fara í þessar framkvæmdir væri eðlilegt að setja skatt á þær leiðir. Við vitum öll að það sem er verið að gera hér er að fjármagna á verkið með notendagjöldum. Það er bara nákvæmlega þannig. Þetta er sérstakur skattur á þær framkvæmdir sem hér er um að ræða. Þannig var sú umræða og þannig var samþykkt þingsins. Það er ekki flóknara en það.

Svo hafa menn haft alls konar skoðanir og efasemdir um það eftir á en það var hins vegar alveg skýrt allan tímann í mínum huga. Ég var mjög lengi að fást til að fara þessa leið vegna þess að við erum að skattleggja umferðina með öðrum hætti, þ.e. með því að taka bensíngjöld og álögur í gegnum það, og þetta er sérstakur skattur á þessar þrjár brautir og líka á Vaðlaheiðargöngin.

Þegar lagt var af stað sögðu menn að þessi verkefni, Suðurlandsvegur, Vesturlandsvegur, Reykjanesbraut, ættu að bera sama skatt og ástæðan fyrir því var sú að þetta væru stofnbrautir út frá höfuðborgarsvæðinu. Og ekki nóg með það, þær eru nefnilega mislangt á veg komnar. Það kostar mismikið að klára hverja framkvæmd fyrir sig. Það væri því ákveðið réttlætismál að þessar stofnbrautir yrðu allar í einu félagi og allir sem um þær ferðuðust þyrftu að greiða sama gjaldið. Þá var talað um 160–180 kr. gjald. (Gripið fram í.) Menn ræddu þetta út frá þeim forsendum. Síðan hafa komið fram alls kyns upplýsingar, bæði réttar og rangar og blásnar upp. Ég er því ekkert hissa á að margir hv. þingmenn og sérstaklega þeir sem eiga ekki sæti í hv. samgöngunefnd séu dálítið á reiki í málinu. Við sáum hér hugmyndir um að það þyrfti að vera allt upp í 700 kr. og þar fram eftir götunum. Ég hef fullan skilning á því að margir staldri við og spyrji sig hvort við þurfum við ekki að skoða þetta aðeins betur í því ljósi sem ég rakti hér á undan, því að þegar farið var af stað með frumvörpin, eins og ég rakti í máli mínu, voru forsendurnar með allt öðrum hætti. Í fyrsta lagi hvernig ætti að fjármagna verkin og í öðru lagi notendagjöldin og í hvaða mæli þau ættu að vera.

Hins vegar er það svo og á því leikur enginn vafi að það er samþykkt þingsins hvort menn setja þá eignarnámsheimild sem hér er, og ég tel reyndar persónulega að ef menn ætla að halda áfram með verkefnið í heild sinni og standa að baki því verði menn að standa að þessari aðgerð hér. Öðruvísi eru menn bara að skjóta sér til hliðar og vilja ekki taka þátt í og kannast við það sem búið er að gera. Það vil ég forðast í lengstu lög, alla vega persónulega. Mér finnst þetta verkefni fjalla um það.

Aðeins líka um það sem verið er að gera hér. Ég er með fyrirvara á þessu máli og hann snýr kannski fyrst og fremst að tvennu. Í fyrsta lagi: Af hverju var þetta ekki nægilega tryggt í upprunalegu lögunum, af hverju yfirsást mönnum þetta? Ég spyr að því. Er það ráðuneytið eða fékk ráðuneytið ábendingu frá Vegagerðinni? Var æskilegt að gera þetta með þessum hætti? Ég tel að það hefði átt að vinna málið betur. Það hefði ekki þurft að leggja það á hv. þingmann og formann samgöngunefndar, Björn Val Gíslason, að flytja sérstakt frumvarp um þetta mál, sem hann er að gera. En ef menn vilja klára málið með eðlilegum hætti og það kemur fram í nefndarálitinu og umfjöllun nefndarinnar að það ríkir ákveðin óvissa um málið — það er ekki fullyrðing að svo sé en það ríkir mikil óvissa og það er ástæðan fyrir því og maður mundi frekar halda að menn teldu meiri þörf en minni að hafa þetta inni.

Það er þá líka verið að taka af allan vafa um að þetta félag hafi eignarnámsheimildina. Þá kem ég að því sem mér þykir reyndar líka dálítið óþægilegt og það er að framkvæmdin er ekki farin af stað, í sjálfu sér byrjað að leggja veginn, en það eru hins vegar hafnar viðræður við landeigendur. Menn hafa sest niður af hálfu þessa hlutafélags og reynt að semja við landeigendur um að ákveðið land þurfi að fara undir þessa vegagerð. Það kemur kannski ekki á óvart þó að það sé oft með þeim hætti að þar skilji himinn og haf á milli eins og sagt er, þ.e. að landeigendur telja landið sem þeir þurfa að láta af hendi til verkefnisins margfalt meira virði en það sem þeir sem fara fyrir hönd hlutafélagsins telja. Þá kemur spurningin sem ég get ekki svarað persónulega en hef ákveðna fyrirvara við þar sem ég er ekki löglærður maður en truflar mig: Erum við að grípa inn í eftir að ferlið hófst? Er eðlilegt að löggjafinn grípi inn í eftir á? Ég átta mig ekki alveg á því, ég viðurkenni það bara. Hefur það áhrif eftir að viðræðurnar eru hafnar eins og ef við hefðum gert þetta á fyrri stigum áður en stjórn hlutafélagsins settist niður með landeigendum og fór að semja um verð á landinu sem á að taka undir framkvæmdina? Þetta er nokkuð sem ég átta mig ekki á hvort er með óeðlilegum hætti. Þess vegna er ég með fyrirvara.

Til að undirstrika það líka að þó að þetta félag fái heimild til eignarnáms er heimildin byggð á því að það verður að fara í gang og fer í gang nákvæmlega sama ferli og þegar Vegagerðin beitir eignarnámsheimildinni sem slíkri, þ.e. Vegagerðin sjálf. Það fara af stað ákveðnar samningaviðræður sem taka ákveðinn tíma og ef menn stranda í þeim og komast ekki lengra á þeim punkti eru kallaðir til dómkvaddir óháðir matsmenn sem fara yfir stöðuna og meta hvað er eðlilegt virði. Þetta eru óháðir aðilar. Þetta er bara eins og ferlið er í dag að gera þetta með þessum hætti. Það er enginn vafi um það. Ef Vegagerðin væri að fara í þessar framkvæmdir sjálf væri þetta með þeim hætti.

Það kom hins vegar mjög skýrt fram núna í meðförum nefndarinnar á þessu máli, og hv. þm. Björn Valur Gíslason svaraði því mjög afgerandi áðan í andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal, að eins og málið er uppbyggt í dag sé ekki gert ráð fyrir að ríkissjóður setji neitt fjármagn í verkefnið. En við skulum vera alveg meðvituð um það, a.m.k. er ég það, að ef verkefnið fer illa eftir einhvern ákveðinn tíma eru þarna ábyrgðir sem sannarlega munu lenda á ríkissjóði að mínu mati. Við komumst ekki hjá því. Gangi verkefnið ekki upp, segjum að fimm árum eftir að það fer af stað bresti grundvöllurinn vegna þess að umferð hefur fallið eða einhverra hluta vegna hafi þurft að hækka gjaldið of mikið, þá er tvennt að gera, annaðhvort þarf ríkissjóður að greiða niður gjaldið eins og rætt var í upprunalegum hugmyndum og hafa hugsanlegt skuggagjald eins og er fyrirmynd að til að mynda á mörgum stöðum í Noregi, ellegar að yfirtaka verkefnið. Það þýðir að mínu viti að ef menn setja af stað eitthvert verkefni eins og í þessu tilfelli veglagningu gegnum Vaðlaheiðargöng og ekki reynist sá grunnur undir því sem talinn var, það þarf ákveðna umferð til að ná því, verður ríkið auðvitað að yfirtaka hlutafélagið eða þann hluta sem er þar fyrir utan. Þó að í upprunalegu hugmyndunum sé það alveg klárt og kvitt að þetta sé ekki með þeim hætti að við setjum inn peninga í upphafi er þetta sem ég er að segja hér klárlega með þessum hætti að mínu mati .

Síðan langar mig örstutt í lokin á ræðu minni að fara aðeins yfir það að þegar við fórum af stað með þessar einkaframkvæmdir vissum við alveg hvernig þetta var, við þurfum ekki að tala neitt í kringum það. Það er bara vegna þess sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði og menn vita að ríkiskassinn er tómur, það þarf ekki að halda langar ræður um það. Getan til að vera í framkvæmdum er metin og samgönguáætlun gerir ráð fyrir því á næstu þremur árum að vera með í kringum 7 milljarða, það byrjar á 7,5 milljörðum og svo var búið að ráðstafa af því árinu á undan þannig að við erum að tala um 6 til 6,5 milljarða í nýframkvæmdir á hverju ári næstu þrjú árin, 2010, 2011 og 2012, reyndar er eitt árið liðið. En þessi framkvæmd eru sérlög. Ef þetta væri öðruvísi væri þetta ekki gert með þessum hætti. Við værum ekki að setja sérlög um þetta verkefni heldur að fjármagna það með öðrum hætti, þá væri þetta verkefni bara í samgönguáætlun. Það þarf engar kúnstir í kringum það.

Það er mjög mikilvægt og ég ætla að ítreka það líka að mér finnst að margir hv. þingmenn hafi verið að segja í umræðunni svona eftir á: Ég skildi þetta ekki þannig að þetta væri einhver sérstakur skattur eða sérstök gjöld, þetta ætti bara að falla inn í heildarmyndina. En það er ekki þannig. Það er alveg skýrt og ég fór mjög vel yfir það í ræðum mínum að þegar til þessa verkefnis var stofnað var alla tíð talað um að þetta yrði sérstakur skattur, rétt eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á áðan. Þetta er sérstakur skattur. Það er ekki verið að tala um að draga úr skattlagningu í eldsneytisverði eða neinu á móti þessu. Það var alltaf talað um þetta, þó að menn væru með hálfruglingslega umræðu um að eftir ákveðinn tíma yrði farið að innheimta með GPS-tækjum og þar fram eftir götunum, eins og gert er sums staðar, sem hefði þó ekki orðið fyrr en árið 2015, þá var alltaf talað alveg skýrt um að þessar framkvæmdir í einkahlutafélögunum yrðu alveg sér aflokaðar þegar málið var sett upp, algjörlega. Síðan geta menn auðvitað seinna, það getur enginn tekið löggjöfina af þinginu en á þeim þingum sem koma á eftir geta menn breytt því og sagt að nú vilji þingið greiða inn í þetta til að lækka gjöldin eða þar fram eftir götunum. Það er bara pólitísk ákvörðun á hverjum tíma. En svona var málið sett upp. Mér hefur hins vegar oft og tíðum fundist í umræðum um þetta mál að margir hafi verið að reyna að gera dálítið úr því að þeir hafi ekki skilið þetta alveg svona, og þó að við hæstv. innanríkisráðherra séum ekki oft sammála er það alveg klárt að svona var málið sett upp þannig að það fór ekkert á milli mála hvernig þetta yrði gert.

Síðan geta menn talað um réttlætið í því hvort eðlilegt sé að skattleggja suma veglagningu en ekki aðra — það er allt önnur umræða — hvort það sé eðlilegt að fólk sem býr á þéttbýlissvæðunum og greiðir mestu bensíngjöldin þurfi að borga sérstaklega fyrir það og hvaða áhrif þetta hafi á byggðina til að mynda á Selfossi, í Reykjanesbæ, í Borgarnesi eða á Akranesi þar sem fólk er kannski á einu atvinnusvæði. Margt fólk sem býr jafnvel á Selfossi, í Hveragerði, í Þorlákshöfn eða í þessum ramma sem ég nefndi vinnur á stór-Reykjavíkursvæðinu og öfugt. Þá er líka mjög mikilvægt að menn geri sé grein fyrir því, og það kom ekki á óvart, að einmitt þessir aðilar gerðu athugasemdir við þetta vegna þess að þetta kostar stórfé. Fólk sem var búið að setja sig niður þarna sagði: Ég keypti mér ódýrara húsnæði, hugsanlega í Reykjanesbæ, á Selfossi, á Akranesi eða á þessum stöðum, til að geta haldið áfram að vinna í Reykjavík, þar hef ég vinnu, en þetta setur strik í þann reikning. Það er mjög réttlát gagnrýni að koma því á framfæri að þetta sé með þeim hætti. En þannig var þetta alltaf sett upp og þannig verðum við að kannast við það en reyna ekki að hlaupa frá því. Eftir situr þetta.

Mér finnst ekki maklegt eða mér finnst ekki rétt af hv. þingmanni og formanni samgöngunefndar, Birni Vali Gíslasyni, að gera athugasemdir við það þó að menn vilji ekki ræða nákvæmlega þessa einu grein um að það eigi að fara að setja eignarnámsheimild inn, vegna þess að frá því að málið var samþykkt í þinginu upphaflega hefur margt breyst, mjög margt, og margt af því hefur ekki komið nógu skýrt fram í umræðunni í þinginu. Sérstaklega, eins og ég ítrekaði, finnst mér ekki óeðlilegt að þeir hv. þingmenn sem eiga ekki sæti í samgöngunefnd kalli eftir þeim breytum sem þarna eru að verða og vilji reyna að skilja málið betur, því að það er mikilvægast þegar við fjöllum um þessi mál og setjum lög að við séum algjörlega meðvituð um hvað við erum að gera. Mér finnst eftir á að hyggja þegar menn hafa verið að ræða það sem gert var í upphafi við stofnun þessara hlutafélaga hafi menn reynt að skauta einhvern veginn fram hjá því og sagt að þeir skilji þetta ekki með nákvæmlega sama hætti og lögin voru samþykkt og umræðan fór fram í þinginu, en í ræðum mínum benti ég á og fór alveg sérstaklega yfir alla þessa þætti sem ég hef nefnt, þannig að öllum sem hefðu átt að hlýða á umræðuna hefði a.m.k. átt að vera ljóst hvað þeir voru að samþykkja.