Áhrif frumvarps um stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 09. júní 2011, kl. 14:03:28 (0)


139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

fólk í fjárhagsvandræðum vegna lánsveða.

[14:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við þurfum ekki að hafa mörg orð um að meðal þeirra vandamála sem við höfum staðið frammi fyrir er að lán hafa stökkbreyst og hækkað hjá almenningi á sama tíma og laun hafa lækkað. Það hefur verið pólitísk samstaða um að koma til móts við fólk í skuldavanda.

Einn hópur hefur hins vegar algerlega orðið út undan, sá hópur sem hefur fengið lánsveð. Til dæmis stendur því fólki ekki til boða 110%-leiðin sem mikið hefur verið bent á.

Í gærkvöldi var í fréttum Stöðvar 2 kynnt aðstaða stórrar barnafjölskyldu sem hefur lent í því að lánin hafa hækkað mjög mikið og launin lækkað en sú fjölskylda hefur ekki tækifæri á úrlausn vegna þess að ef um lánsveð er að ræða er ekki tekið tillit til þess.

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra, verkstjórann í ríkisstjórninni, að tvennu, í fyrsta lagi hvort hæstv. ráðherra finnist þetta eðlilegt og réttlátt. Finnst henni rétt og eðlilegt að ekki sé komið til móts við þennan hóp fólks? Í öðru lagi, ef hæstv. ráðherra finnst það ekki eðlilegt, hvað ætlar hæstv. ráðherra þá að gera í málinu og hvenær?