Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 09:58:50 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[09:58]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst lítils virði þegar fólk kemur í ræðustól, talar um sættir og eindrægni og að það þurfi að vinna málin málefnalega o.s.frv. en gerir sig svo sekt um að fara með vægast sagt ónákvæma hluti, ef ekki bara ósannindi, (Gripið fram í: Segir …) og tala niður til pólitískra andstæðinga. (Gripið fram í: Það er komið …) Hér kallaði hv. þingmaður stóra frumvarpið, sem við eigum reyndar ekki að vera að ræða hér, um breytingar á framtíðarfiskveiðistjórn, samfylkingarfrumvarpið sem hefði farið í endurvinnslu. Hefði þingmaðurinn hlustað á ræður samfylkingarþingmanna þegar það frumvarp var til umræðu hér hefði hún áttað sig á því að til dæmis varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, sem hér stendur, er með fyrirvara við átta greinar þess frumvarps.

Það er kannski rétt að það komi fram í þessari umræðu að það er mikið ofmæli að kenna það frumvarp við Samfylkinguna. Samfylkingin hefði gengið mun lengra og allt öðruvísi til verks við að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu hefði það frumvarp verið samið eingöngu á forsendum stefnuskrár Samfylkingarinnar. Hins vegar höfum við líka látið koma fram að það eru ákveðin lykilatriði í þessu frumvarpi og góðar breytingar sem það gerir ráð fyrir sem við viljum ekki standa í vegi fyrir og ætlum þar af leiðandi að reyna að leggja því gott til.

Síðan sagði þingmaðurinn að það væri sátt um að breyta kerfinu, það væru allir sammála um það, taldi upp nýtingarsamninga, potta, samfélagslegt mat, skattlagningu og veiðigjald, og sagði að um þetta væru allir sammála. (Gripið fram í.) Ef svo er skil ég ekki hvers vegna þetta írafár er uppi á Alþingi Íslendinga þegar við ræðum þessi mál því að margt af því sem þingmaðurinn sagði efnislega hefði getað verið tekið upp úr mínum eigin ræðum og blaðaskrifum.

Ég spyr þá hv. þingmann: Hvaða breytingar vill hún sjá (Forseti hringir.) á fiskveiðistjórnarkerfinu, og þá kannski ekki síður á þessu frumvarpi?