Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 10:32:45 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður hefur hlustað á ræðu mína var ég einmitt að draga það fram að efast má um allar þær breytingar sem hafa verið gerðar á kerfinu til að koma til móts við þá gagnrýni sem hefur verið á kerfið í gegnum tíðina, hvort sem það er í formi byggðakvóta eða öðru, hvort þær hafi allar verið réttar og hafi stuðlað að þeirri arðbærni og þjóðhagslegu hagkvæmni sem er nauðsynleg fyrir okkur til að hafa sjávarútvegskerfið í lagi.

Mér finnst svo makalaust að hlusta á þær raddir hér af hverju ekki megi bíða með þetta til haustsins. Við viljum öll fjölbreytni. Við viljum öll að hinar dreifðu byggðir fái að blómstra, en við verðum líka að horfast í augu við það, ekki nema menn ætli að fara að breyta því, að þetta er takmörkuð auðlind. Við erum að veiða núna — væntanlega hækkar þorskaflinn — 130 þús. tonn. Kakan stækkar ekki, (Gripið fram í: 160 þúsund.) 160 þús. tonn. Kakan er ekki að stækka, það er ekki þannig.

Þegar við fórum úr 190 þús. tonnum niður í 130 þús. tonn — ég var með það í huga — á sínum tíma árið 2007 þegar sjávarútvegsráðherra þurfti að taka þá sársaukafullu ákvörðun til þess að byggja upp m.a. þorskstofninn, sem hefur verið aukning í núna sem betur fer, þá var það tekið af þeim sem áttu fyrir og höfðu aðganginn fyrir að kvótanum. Menn gerðu ráð fyrir að menn tækju því og menn voru tilbúnir í slíka sársaukafulla hagræðingu af því að menn vissu að þegar þorskstofninn færi upp að nýju gætu þeir haft aðgang að því að veiða meira. Það er verið í raun að taka það allt af mönnum í dag.

Það má bíða en enginn, ekki hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir eða hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, eini þingmaðurinn sem styður þetta mál fyrirvaralaust, getur sagt mér hver efnahagsleg áhrif þessa máls eru. Það er ekki búið að reikna það út. Og ætla menn bara að hunsa það, horfa fram hjá þeim umsögnum sem hafa verið um þetta mál? Öðruvísi mér áður brá.

Ég tel þetta vera vanhugsað. Ég tel enn, því að ég er bjartsýn þrátt fyrir þau ummæli sem hafa (Forseti hringir.) verið látin falla, að hægt sé að ná mun meiri sátt um sjávarútveginn en menn vilja vera láta.