Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 11:44:53 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:44]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar við vinnum að breytingum eins og við gerum nú í sjávarútvegsmálunum hlýtur það að vera eitt meginatriðið að við gerum okkur grein fyrir því hvert þær breytingar eiga að leiða okkur, hvert við stefnum með breytingunum. Þegar við á sínum tíma settum kvótakerfið í sjávarútvegi á voru sett skýr markmið um það hvert við ætluðum að stefna. Þegar framsalinu, sem er kannski það umdeildasta í fiskveiðistjórnarkerfi okkar í dag, var komið á árið 1990 var markmiðið alveg skýrt, það var alveg skýrt hvernig menn töluðu þá. Þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi á þeim tíma ekki verið í ríkisstjórn og ekki greitt atkvæði með framsalinu er það óumdeilt í dag að það er eitt besta skrefið sem stigið hefur verið til að hagræða í sjávarútvegi. Þáverandi sjávarútvegsráðherra tók það sérstaklega fram, í ræðum sínum um þessi mál, að þetta mundi leiða til samþjöppunar, þetta mundi leiða til fækkunar í fiskiskipaflotanum og að við fengjum hagkvæmari sóknareiningar í lokin. Þannig að markmiðin voru alveg skýr og þau hafa gengið eftir. Þau hafa leitt til þess að við rekum óumdeilanlega einn hagkvæmasta sjávarútveg í heimi. Það hefur verið farið yfir það áður hvað aðrar þjóðir eru að borga með sjávarútvegi sínum, að þær eru með allt of stóran fiskiskipaflota. Við sjáum að Evrópusambandið er til að mynda með 300 milljarða, að ég held, á ekki löngu tímabili sem þeir ætla að nota í úreldingarsjóð fiskiskipa, eitthvað sem við létum greinina sjálfa taka á sig í okkar kerfi, þá eru þeir að greiða þetta niður.

Ef við ættum að styrkja sjávarútveg okkar, fyrir utan þennan úreldingarsjóð, á sama hátt og gert er í Evrópusambandinu, þyrftum við að borga um 100 milljarða á ári með sjávarútveginum.

Þessar breytingar hafa óumdeilanlega orðið til góðs fyrir samfélagið, þó að vissulega séu á því neikvæðar hliðar sem voru fyrirséðar. En segja má að stjórnvöld hafi brugðist því hlutverki sínu að efla atvinnustig á umræddum stöðum í öðrum greinum samhliða þessari þróun. Þegar við förum í breytingar verðum við að vanda til verka. Markmiðin verða að vera skýr. Við getum ekki haft þetta eins flausturslegt og málin hafa verið lögð fram nú. Það er allt of mikið í húfi fyrir okkar samfélag.

Um þetta þarf að ríkja víðtæk sátt í samfélaginu. Til þess að sú sátt náist þurfa þeir sem standa í forsvari á hverjum tíma, stjórnvöld og stjórnmálamenn, að tala málefnalega og yfirvegað um þessa hluti. Það er það sem hefur skort, það er það fyrst og fremst. Ég held að ábyrgðin liggi mjög mikið í pólitíkinni á því hvernig ástandið er í þjóðfélaginu, þ.e. sú óánægja sem hefur náð að grassera. Upphrópanir um kvótagreifa, sægreifa — auðvitað höfum við öll horft upp á það að menn hafa nýtt sér aðstöðuna og farið út úr greininni með miklum hagnaði, selt fyrirtækin sín og fengið óeðlilegan hagnað. Það má segja að það hafi verið ein af mistökunum, kannski stærstu mistökin, að við skyldum ekki skattleggja það með einhverjum hætti þannig að ríkið fengi af því tekjur. En við misstum þann vagn fram hjá okkur og það er erfitt að ná honum, hann er farinn og við verðum að taka næsta vagn. Við getum ekki gert það með þeim hætti að refsa þeim sem hafa farið að leikreglum.

Það er alveg sama hverjir skoða sjávarútvegskerfi okkar, hið mikilvæga samspil útgerðar, vinnslu og markaðssetningar er alltaf grundvallaratriðið. Það eru þessi atriði sem hafa sett okkur í fremstu röð í heiminum. Við erum að ná hærra afurðaverði hér en gengur og gerist. Það er mikil fjölbreytni í íslenskum sjávarútvegi. Ég er ekki sammála hv. þingmanni og formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, þegar hún talaði um það hér áðan að fjölbreytnin væri ekki til staðar í kerfinu. Það er bara alls ekki rétt. Það er alveg gríðarleg fjölbreytni í íslenskum sjávarútvegi, bæði í sjósókn og vinnslu. Við höfum til dæmis séð þvílíka þróun verða í smábátaútgerð á landinu að það er algjör bylting, hvernig aðstæður manna hafa breyst um borð í þessum bátum, hve öflug verkfæri eru komin til sögunnar, hvað aðstæður og meðferð afla hafa breyst og öll þessi vitund sem við þurfum að hafa til að reka hagkvæman sjávarútveg.

Það lofaði góðu þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra lagði af stað í þessa vegferð. Maður bar þá von í brjósti að fyrsta skref hans, þegar hann setti sáttanefndina á laggirnar, yrði til þess að við næðum einhverjum raunhæfum markmiðum og eins víðtækri sátt og hægt væri að gera. Það var mjög eðlilegt að í þeirri sáttanefnd væri tekist á. Þarna voru allir hagsmunaaðilar og þarna voru mismunandi pólitísk sjónarmið innan borðs við sama samningaborðið. Og menn hlupu út og skelltu hurðum og komu svo aftur eftir einhverja mánuði og settust að samningaborði. Þetta er eins og gerist í kjaraviðræðum og í samningaviðræðum almennt. Ekkert óeðlilegt við það í sjálfu sér, mismunandi skoðanir. En á endanum náðum við niðurstöðu. Við náðum niðurstöðu um meginleiðir, hvernig við ættum að fara í breytingaferli á fyrirkomulagi okkar í sjávarútvegi. Það voru allir sem skrifuðu undir þessar megintillögur að undanskildum fulltrúum Hreyfingarinnar og fulltrúa Sambands fiskframleiðenda og útflutningsaðila; allir meginaðilar voru sáttir við að halda áfram.

Hvað gerðist þá? Málið var tekið úr þeim sáttafarvegi sem það var komið í og sett inn til ríkisstjórnarflokkanna og fljótlega fór að rjúka úr þeim eldi sem kviknaður var. Í átta mánuði í augljósum ágreiningi komst ráðherra ekkert áfram með málið. Skipaðar voru þingmannanefndir og ráðherranefndir innan ríkisstjórnarflokkanna sem komust ekkert áfram. Niðurstaðan varð sú að leggja fram frumvörp sem eru algerlega í henglum. Það þurfti ekki einu sinni að fara í umsagnarferli til að sjá það, það sást um leið og afurðin leit dagsins ljós. Þetta var í algerum henglum. Þetta kemur inn í þingið fyrir um það bil 10 dögum og það á að rífa þetta út með miklum látum og klára þetta í sumar.

Mjög fáir stjórnarmenn hafa tjáð sig um málið og það er slæmt að við skyldum vera hér ein, stjórnarandstaðan, aðallega hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem tjáðum okkur og viðruðum skoðanir okkar í þessu máli án viðveru fjölmargra þingmanna stjórnarflokkanna sem að öðru leyti hafa tjáð sig um þessi mál á opinberum vettvangi.

Vinnubrögðin í framhaldinu voru algjörlega óboðleg af hálfu Alþingis — hringt var í menn með stuttum fyrirvara. Þeim gefinn sólarhringur til að skila umsögnum og síðan var hafist handa við að funda í sjávarútvegsnefnd. Gestum var boðið upp á að koma á fundi seint um kvöld og fram á nætur. Og þegar kom að því að við mættum hér einn morguninn, þingmenn í þessari nefnd, til þess, að við héldum í stjórnarandstöðunni, að hitta fleiri umsagnaraðila þá lá bara nefndarálit á borðinu. Málið skyldi rifið út. Það var að mati meiri hluta nefndarinnar fullrætt og þurfti ekki frekari vitnanna við. Þetta var gert þrátt fyrir hina eindregnu niðurstöðu umsagna sem við höfðum fyrir framan okkur. Varnaðarorð hvert sem litið var, frá sjómönnum, landverkafólki, útgerðarmönnum og sérfræðingum sem af eigin hvötum sáu sig knúna til að senda álit til nefndarinnar. Algjöra falleinkunn. Takið þetta til endurskoðunar. En þá þurfti málið ekki frekari vitnanna við af hálfu meiri hluta nefndarinnar.

Hvað hefur gerst síðan? Nefndin hefur tekið málið til sín tvisvar eða þrisvar eftir það. Það er ekki einu sinni að verða eftir stofn af frumvarpinu, það er varla hægt að kalla það stofn því að flestar greinarnar eru farnar. Við finnum líka fyrir þessum skjálfta í stjórnarflokkunum vegna eigin ábyrgðarleysis. Þegar þeir þurftu að fara að horfa í augun á fólki, umbjóðendum sínum, út um allt land og fengu þessi hastarlegu viðbrögð, sem hefði verið hægt að segja þeim fyrir fram, þá kikna menn í hnjánum. Þetta er ekki boðlegt, virðulegi forseti. Þetta er ósómi fyrir Alþingi að standa að svona vinnubrögðum.

Niðurstaðan er sú að hér er orðið eftir frumvarp sem tekur einungis til mjög lítils hluta af því sem lagt var af stað með. Eftir stendur að láta hæstv. ráðherra hafa 4.500 tonn í potta, hækka veiðigjald um 40% í stað 70% og síðan er 2. gr. inni með breyttri útfærslu.

Ég vil gera hana að umræðuefni vegna þess að hún er í mínum huga sanngirnismál. Það er eðlilegt að hagsmunaaðilar bregðist við þegar breytingar af þessu tagi eru kynntar. En meginniðurstaðan er samt alveg skýr, það er sátt um þetta í greininni. Ég hef átt samtöl við fólk víðs vegar að af landinu í mismunandi útgerðarformum nú á síðustu dögum. Ég hef ekki heyrt annað frá forsvarsmönnum uppsjávarfyrirtækjanna en að þeir séu sáttir við að fara þessa leið. Fulltrúar þeirra sem komu fyrir þingnefndina sögðu að þeir væru sammála því að dreifa þeim byrðum sem félagslegir pottar eru á kerfinu. En menn greinir á um útfærslu. Þess vegna höfum við mildað fyrsta skrefið til að menn geti aðlagað sig þessu, til þess að hægt sé að þróa þetta. Því verður engan veginn haldið fram að með því skrefi sé verið að setja einhver fyrirtæki eða einhverjar byggðir í uppnám. Það er ekki hægt að halda því fram. Þegar þetta er komið niður í 30% af upphaflegri hugmynd, eða um 2 þús. tonn í heildina inn í pottana. Fyrir þessi stóru öflugu sjávarútvegsfyrirtæki og þá staði er það engin ógn. Það þarf ekki að velta því fyrir sér.

Við getum tekið til samanburðar að hæstv. ráðherra hefur sett um 10 þús. tonn í pottana á þessu kjörtímabili. Hann hefur sett um 10 þús. tonn á ársgrundvelli. Og hvaðan hafa þeir pottar verið teknir? Þeir hafa verið teknir af bolfiskfyrirtækjunum. Á ársgrundvelli eru það 6% af heildaraflanum — sex prósent. Ég er viss um að einhvers staðar hefði nú heyrst hljóð úr strokki. Þær útgerðir eru því á þessu kjörtímabili búnar að taka á sig hlutfallslega meira, mun meira, miklu meira en við erum að bjóða upp á í fyrsta skrefi til uppsjávarfyrirtækjanna. Gangi það eftir að þessir pottar verði settir á fyrir haustið og þetta veiðigjald, fellur reikningur á gjalddaga 1. september, sem útgerðin í landinu þarf að borga. Í mínum huga snýst þetta um að það verði ekki bara bolfiskútgerðirnar sem þurfa að borga þann reikning, það verði allir að koma að því að borga hann.

Það er síðan umhugsunarefni, og alveg sjálfstætt verkefni, að fara yfir þetta pottakerfi okkar. Auðvitað hefði átt að skoða þessa hugmynd um strandveiðar miklu betur en gert var. Nú erum við búin að koma þessu kerfi af stað. Fólk er búið að fjárfesta í þessum strandveiðum. Við erum að bæta inn í þetta. Ráðherrann hefur hugmyndir og gefur fólki væntingar um enn frekari aukningu á þessum vettvangi. En við höfum enga úttekt um það hversu hagkvæmt þetta er.

Þó að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir tali hér um þá skýrslu sem gerð var fyrir vestan um þetta þá veit hún vel að sú skýrsla er ekki víðtæk. Hún tekur ekki til samfélagslegra áhrifa af þessum veiðum eða hversu hagkvæmar þær eru í heildina þó að þær geti verið á einhverjum vikum eða mánuðum hagkvæmar fyrir einhver einstök byggðarlög. Við megum ekki horfa svo þröngt á málin þegar við fjöllum um málefni sjávarútvegsins. Við höfum ekki efni á því.

Það er kannski eitt af því góða sem við höfum þó fengið út úr þessu strögli hér síðustu daga að stjórnarflokkarnir eru búnir að samþykkja að láta gera úttekt á þessu pottakerfi okkar svo að menn geti þá farið að bregðast við á annan hátt. En það verður erfitt að vinda ofan af strandveiðum. Krafan er strax farin að koma um meiri afla, meiri aflaheimildir, daga jafnvel, jafnvel kvóta, jafnvel að binda þetta, og þær munu aukast þessar kröfur eftir því sem á líður.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði áðan að búið væri að vísa öllum meginmálum til haustsins. Eigum við þá ekki að hugsa okkar gang? Væri þá ekki skynsamlegast að stoppa hér og nú? Ef öll meginmál, allt sem skiptir máli, ef stjórnarliðar eru sammála um það, er komið út úr þessu, eigum við þá bara ekki að stoppa hér og nú? Eigum við ekki að hætta þessu? Hætta að bjóða þjóðinni upp á þessa vitleysu? Hætta að bjóða hagsmunaaðilum upp á þessa óvissu og fara í þetta mál af einhverri skynsemi? Er það ekki orðið tímabært? Höfum við ekki lært lexíu um það hvernig viðtökur eru þegar vinnubrögð eru á þann veg sem raun ber vitni? Væri þá nokkur skömm að því, fyrir hæstv. ráðherra, að segja bara: Heyrðu, ég ætla að taka tillit til þeirra ríku sjónarmiða sem hér hafa komið fram? Ekki bara hjá umsagnaraðilum heldur einnig hans eigin flokkssystkinum eftir að þau þurftu að fara að horfast í augu við sína umbjóðendur þá er þetta ekki boðlegt. Eigum við þá ekki að vanda vinnubrögðin? Eigum við ekki að láta þetta verða upphaf þess, virðulegi forseti, að fara að vanda vinnubrögðin í þinginu? Ég held að við komumst ekki neðar í lágkúrunni en í þessu máli? Ég held að þetta sé eitt það allra versta sem Alþingi hefur tekið þátt í, sem okkur þingmönnum er boðið að taka þátt í af stjórnvöldum. Þetta skamma ferli, þessi skammi umsagnartími gagnvart fólkinu í landinu, það uppnám sem við setjum kerfið í — er ekki ágætt að stoppa hérna við? Ég held við förum ekkert neðar. Eigum við ekki að fara að varða leiðina upp á við í vinnubrögðum okkar aftur?

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði áðan að við gætum reiknað okkur norður og niður. Það er alveg rétt. Auðvitað sýna reikningar þá niðurstöðu sem forsendur eru gefnar fyrir. Það er hægt að fá mismunandi niðurstöðu eftir því hvaða forsendur þú setur inn í dæmið, hvaða breytur. En við getum líka gert eins og við erum að gera í þessu máli, virðulegi forseti, og farið út og suður. Við getum bara farið út og suður og ekkert vitað hvert við erum að stefna og haldið öllu í óvissu.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, varaformaður nefndarinnar, sagði áðan að mikilvægt væri að ljúka því sem eftir er af frumvarpinu vegna strandveiðipotta. Ég skal taka þátt í því með henni og stjórnarliðum að ráðherra geti bætt aðeins í strandveiðina í sumar. Hann á fyrningar í öðrum pottum til að nota inn í þá (Forseti hringir.) viðbót sem hann telur sig þurfa í sumar. Við skulum láta staðar numið við það. Við skulum láta staðar numið við það og hefja vinnu af einhverri skynsemi aftur í haust.