Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 12:29:20 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:29]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég styð meginleiðir þessa frumvarps, meginbreytingarnar, og tel þær vera til heilla fyrir atvinnugreinina, til heilla fyrir landsmenn. Það þarf að ná sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein, menn verða að setja niður deilur og ná saman. Betur hefði farið á því að hv. fyrirspyrjandi hefði hlustað á fyrri hluta ræðu minnar vegna þess að ég talaði þar um ósanngirni þess að menn væru að selja sig út úr greininni og fara beint inn í hana aftur. Ég varði drjúgum hluta ræðu minnar í það óréttlæti og þá ósanngirni og tók sérstaklega fram að undan því sviði. Ég tel að í þessu felist helsta óréttlæti þeirra breytinga sem við ræðum hér.

Varðandi framlagningu þessa máls hef ég sagt það hér, og segi það enn, að við eigum auðvitað að virða þingsköp, við eigum að virða vinnureglur Alþingis. Þetta mál kom of seint fram, það vita allir. Þetta mál kom fram á að giska ófullbúið. Ég tel það ekki til eftirbreytni. Við erum hér að fjalla um helstu og elstu atvinnugrein landsmanna sem varðar margar viðkvæmustu byggðir landsins og þess vegna verðum við að fara fram af varúð, þess vegna verðum við að spyrja fyrst og skjóta svo. Ég tel mjög mikilvægt að margir hlutar þessara breytinga verði teknir til endurskoðunar. Það lýtur ekki síst að útreikningum í hina samfélagslegu aflahlutdeildarsjóði eða potta. Það lýtur ekki síst að því hvernig við sköpum eðlilega nýliðun í greininni. Hún má ekki vera fyrst og fremst á þann veg að þeir sem hafa selt sig oftast út úr greininni komist þar fyrst inn aftur.