Prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar forseta

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 13:49:38 (0)


139. löggjafarþing — 152. fundur,  11. júní 2011.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar forseta.

891. mál
[13:49]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þessari tillögu sem fram er komin um að stofna prófessorsstöðu tengda nafni Jóns Sigurðssonar forseta í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli hans þann 17. júní næstkomandi. Ég tel mjög vel við hæfi að nafn þessa forustumanns sjálfstæðisbaráttunnar og frumkvöðuls í menntamálum þjóðarinnar sem fæddur var á Hrafnseyri við Arnarfjörð sé heiðrað með þessari tillögu.

Eins og fram kom í máli hæstv. forseta og 1. flutningsmanns tillögunnar er gert ráð fyrir að staðan verði við Háskóla Íslands en að starfsskyldur þess sem henni gegnir verði m.a. við rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða. Vestur á fjörðum er starfandi vaxandi háskólasamfélag og stefna Háskóla Íslands hefur verið að efla fræða- og rannsóknastarf sitt um landsbyggðina. Í því skyni hefur verið komið á fót fræðasetrum og rannsóknasetrum Háskóla Íslands vítt um landið. Það er í anda þeirrar stefnumótunar háskólans að skóli sé ekki hús og ekki bundinn við ákveðinn stað heldur sé skóli lifandi starf sem eigi að skjóta rótum víðar en á upphafsstað þar sem höfuðstöðvarnar eru.

Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar varðandi fjarkennslumöguleika og Háskóli Íslands er nú með bæði kennara og rannsakendur víða um land sem kenna úti á landi og eru með nemendur í öðrum landshlutum en þar sem þeir eru staðsettir. Þetta þekki ég vel. Ég vann að þessari uppbyggingu fyrir fáum árum með Háskóla Íslands og ég veit að engin vandkvæði eru á því að stunda rannsóknir vestur á Ísafirði og kenna nemendum við Háskóla Íslands, þess vegna um allan heim, í gegnum fjarkennslubúnað, það hef ég m.a. gert sjálf. Ég held því að miklir og góðir möguleikar séu í þessu.

Ég fagna því mjög að þessari stöðu verði komið á. Mér finnst vel við hæfi að það sé gert á heimaslóðum Jóns forseta.