Þingfrestun

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 19:35:24 (0)


139. löggjafarþing — 154. fundur,  11. júní 2011.

þingfrestun.

[19:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna flytja hæstv. forseta og varaforsetum bestu þakkir fyrir samstarfið í vetur og hlý orð í okkar garð. Við þingflokksformenn erum búnir að eiga marga fundi með forseta og varaforseta í hennar stað þegar þess hefur þurft. Þeir fundir hafa verið athyglisverðir að mörgu leyti. Stundum höfum við þurft að brýna raust okkar, en alltaf höfum við nú skilið í mikilli vinsemd og andrúmsloftið á þessum fundum hefur í heildina verið afar vinsamlegt. Ég vil þakka fyrir það, það er ánægjulegt að greina frá því.

Það má í raun hafa sömu orð, virðulegi forseti, um þingstörfin. Oft er tekist á um markmið og leiðir sem er ekki óeðlilegt þegar skoðanir og bakgrunnur þingmanna og flokka er ólíkur. Staðreyndin er hins vegar sú að langflest mál eru afgreidd í mikilli sátt hér á Alþingi, hvort sem það er í nefndum eða hér í þingsalnum. Ég held að það sé mikilvægt að við komum því á framfæri.

Ég vil að lokum færa forseta og fjölskyldu hans bestu þakkir og kveðjur fyrir hönd alþingismanna. Starfsfólki Alþingis þakka ég einnig góð störf, einstaka lipurð við okkur og fúslega veitta aðstoð. Ég bið þingmenn að taka undir góðar kveðjur til forseta Alþingis og fjölskyldu hans og þakkir til starfsfólks Alþingis með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]