139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[14:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp fyrst og fremst til að koma tvennu á framfæri. Við fögnum því að sjálfsögðu að við séum að klára þetta mál núna. Við erum sammála því að þetta skuli gert.

Í ljósi þeirra umræðna sem urðu í sumar, eftir að það uppgötvaðist að þetta hefði gleymst eða fallið einhvers staðar á milli þegar var verið að klára málin í vor, verður að nefna að það er alveg ljóst að þar er hvorki við stjórnarandstöðuna að sakast né hæstv. ráðherra. Málið var komið klárt til þingsins og allir voru sammála um að það þyrfti að klára. Þetta mál og nokkur önnur komust hins vegar ekki á dagskrá. Þó var bætt við málum sem sátt var um en við kunnum enga skýringu á því af hverju ekki var lögð áhersla á þetta mikilvæga mál. Því verða stjórnarflokkarnir að svara.

Frú forseti. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals um vinnulagið. Við þurfum að reyna að bæta það. Það er vitanlega óásættanlegt, alveg sama hvað á í hlut, kjarasamningar eða eitthvað annað, að frumvörp eða önnur mál séu undirbúin og afgreidd úti í bæ áður en löggjafinn kemur að þeim en síðan eigi löggjafarsamkoman einfaldlega að samþykkja og afgreiða málið. Þannig geta hlutirnir ekki gengið fyrir sig, bara alls ekki.

Sumir stjórnarliðar hafa iðulega efast um það í þessum stól að það sé eðlilegt að sjávarútvegsmál séu samin og afgreidd úti í bæ af einhverjum hagsmunaaðilum. Það er alls ekki eðlilegt. Það sama á við um það eins og þetta mál, kjarasamninga og annað að löggjafinn hlýtur að þurfa að koma að málinu endanlega. Því þarf að gefa löggjafanum tíma til að sinna skyldu sinni og hlutverki. Við alþingismenn höfum ákveðna ábyrgð og þá ábyrgð verða allir að virða, aðilar vinnumarkaðarins, ráðherrar, embættismenn og aðrir.

Ég vildi koma þessu á framfæri, frú forseti.