Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Mánudaginn 05. september 2011, kl. 16:51:16 (0)


139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hér er lagt til að slá saman tveimur þegar starfandi nefndum og setja nýja nefnd á laggirnar. Það kann að vera í lagi ef það hefði ekki kostnaðarauka í för með sér á þeim tímum sem við akkúrat lifum nú. Ljóst er að sameining þessara tveggja nefnda og sú nefnd sem hér er lagt til að verði að veruleika mun auka útgjöld ríkissjóðs að jafnaði um 12–13 millj. kr. á ári í beinhörðum launakostnaði og þá er ýmislegt annað ekki tekið inn í sem hugsanlega gæti fallið til vegna þeirra breytinga sem hér er samhliða verið að gera.

Einnig er áhugavert við frumvarpið, nefndarálitið og breytingartillögur meiri hluta umhverfisnefndar að það er heldur ekki í takti við þau frumvörp sem lögð hafa verið fram, t.d. frumvarp um breytingar á lögum um Stjórnarráðið Íslands, þar sem verið er að fela forsætisráðherra, hver svo sem hann er á hverjum tíma, að hafa alræðisvald um það hve mörg ráðuneytin verða og hvaða heiti þau bera. Því frumvarpi fylgir bandormur þar sem í öllum frumvörpum sem því tengjast er sett inn orðið ráðherra og út tekið heiti ráðherranna. Hér ákveður meiri hluti umhverfisnefndar, virðulegur forseti, að fara þveröfuga leið. Hún leggur til í breytingartillögu við 2. gr. frumvarpsins að í stað orðsins „ráðherra“ í 1. málslið komi „umhverfisráðherra“.

Virðulegur forseti. Þetta er algerlega á skjön við frumvarpið um Stjórnarráðið sem hér liggur fyrir. Það sýnir manni kannski hvað gleggst að einfaldlega er ekkert samræmi í því sem ríkisstjórnin leggur til. Hægri höndin veit ekki — þeir hafa reyndar enga hægri hönd, (Gripið fram í: Tvær vinstri.) þeir hafa tvær vinstri hendur og hvorug þeirra hefur hugmynd um hvað hin er að gera. Þannig er það einfaldlega og þetta eitt segir manni að betur hefði mátt vanda til verka.

Það er líka sérstakt að á tímum niðurskurðar og skattahækkana skuli ríkisstjórnin sýknt og heilagt leggja til með einum eða öðrum hætti nýjar stofnanir sem hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, fjölga opinberum starfsmönnum á meðan hinn almenni markaður þarf að draga saman og segja upp fólki.

Virðulegur forseti. Það sem vekur kannski mestu álitamálin er ekki eingöngu það að verið er að leggja til að stofnuð verði ný nefnd í umhverfis- og auðlindamálum heldur er líka gert ráð fyrir að reglur um málsaðild að kærumálum sem heyra undir valdsvið nefndarinnar verði víkkaðar verulega út og ekki bara verulega, það er einfaldlega verið að víkka sviðið út í tilteknum málum til alls heimsins. Oft hafa Íslendingar verið stórtækir en ég held að þetta sé eitt stærsta skref í útflutningi og útrás sem nokkurn tíma hefur verið tekið. Það er verið að bjóða allan heiminn velkominn til að kæra samkvæmt 4. mgr. þá þrjá liði sem þar eru tilgreindir. Ég hélt að menn hefðu óttast útrásina og velt því kannski fyrir sér að við hefðum mátt fara hægar.

Virðulegur forseti. Ég held að við þurfum verulega að skoða það sem við horfum á hér. Ég ætla að byrja á að taka fyrir nefndarskipanina, hvar verið er að breyta ráðherra í umhverfisráðherra, sem er algerlega á skjön við það sem Stjórnarráðið er að gera að öllu öðru leyti. Einnig er lagt til í breytingartillögu meiri hluta umhverfisnefndar að hvorki landbúnaðarráðherra, sem þá verður náttúrlega einhver annar ráðherra, né heldur þeir ráðherrar sem hafa hingað til farið með ákveðin ráðuneyti þar sem sérþekking er innan dyra, þ.e. að tilnefning þeirra í nefndina verði tekin frá og Hæstiréttur skipi þá aðila, fyrir utan það að ráðherra skipar formann og varaformann. Ég tel reyndar rétt að tilnefning formanns og varaformanns sé í höndum ráðherra þar sem varaformaður á að ganga í störf formanns forfallist hann, þá sé að baki varaformanni sama tilskipun eða sama tilnefning og með formanninn.

Mér finnst ekki neitt koma fram í þessu sem segir af hverju umhverfisnefnd hefur ákveðið að gera þessar breytingar og hverfa frá þeirri nefndarskipan sem hér er tilnefnd né heldur af hverju hún ákveður að umhverfisráðherra skipi sjö menn en ekki ráðherra eins og ný verðandi lög eða a.m.k. það frumvarp sem liggur fyrir um breytingar á lögum um Stjórnarráðið gerir ráð fyrir, að gelda alla ráðherra og kalla þá bara ráðherra.

Ég hef ekki séð nein rök fyrir breytingum á nefndarskipan né heldur því að tekin hafi verið formleg ákvörðun í frumvarpinu um Stjórnarráðið að til verði eitthvert heiti, þ.e. heiti umhverfisráðherra. En með þessu lagafrumvarpi virðist það vera inni að til verði heiti umhverfisráðherra þótt óljóst sé með alla aðra ráðherra.

Virðulegur forseti. Það sem maður hnýtur hins vegar fyrst og fremst um er málsmeðferð og kæruaðild, og ég vil fá að gera það að athugunarefni.

Í athugasemdum með frumvarpinu um fullgildingu Árósasamningsins stendur skýrt, með leyfi forseta:

„Fá dæmi eru um að aðildarríki Árósasamningsins hafi opnað fyrir aðild allra að stjórnsýslukærum vegna fullgildingar Árósasamningsins og hefur ekkert Norðurlandanna farið þá leið.“

Ég velti fyrir mér hvort það hafi verið kannað, því það kemur ekki fram í athugasemdunum, með hvaða hætti starfssvið og kærumál í öðrum löndum þar sem þessi Árósasamningur hefur verið fullgiltur, þ.e. hvernig á þeim málum hefur verið haldið, hvort það hefur gengið vel eða illa.

Mér finnst heldur engin svör vera í frumvarpinu, í umsögnum, í nefndaráliti meiri hlutans eða á einum eða neinum stað af hverju menn ákveða í 4. gr. um málsmeðferð og kæruaðild að segja eins og þar stendur, með leyfi forseta:

„Þeir einir geta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Sé um að ræða eftirtaldar ákvarðanir þarf sá sem kærir þó ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni:

a. ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum,

b. ákvarðanir um að veita leyfi til framkvæmda sem eru matsskyldar skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum,

c. ákvarðanir um að veita leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur til sleppingar eða dreifingar erfðabreyttra lífvera eða markaðssetningar á erfðabreyttum lífverum eða vörum sem innihalda þær.“

Þegar um er að ræða þessa þrjá liði, a, b og c, getur allur heimurinn sent inn stjórnvaldskæru til úrskurðarnefndar og henni ber að sjálfsögðu að taka þau mál fyrir.

Ég vil spyrja: Af hverju eru þessir þrír liðir teknir sérstaklega út? Hvað er það hjá okkur í ferlinu sem lýtur að matsskyldu framkvæmda, mati á umhverfisáhrifum og öðru þess háttar í þessum tilgangi hér, sem kallar á að allur heimurinn þurfi að koma að eða geti komið að því? Það er ekkert, virðulegi forseti, sem styður að svo skuli vera. Vissulega gæti Ísland þá hrósað sér af því að hafa gengið allra landa lengst í einhverju, en það er hins vegar algerlega ljóst að Árósasamningurinn svonefndi, þó svo að við höfum ekki fullgilt hann að fullu, felur sem slíkur í sér leiðbeiningar og lágmarksreglur og veitir aðildarríkjum þar með allmikið svigrúm varðandi útfærslu einstakra þátta.

Aðildarríkin hafa farið ólíkar leiðir. Eru þær ólíku leiðir slæmar, hafa þær reynst illa? Er þess vegna ástæða til að við á Íslandi, á þessari eyju, heimilum fleiri aðilum að koma að málum og á öllum stigum? Menn geta komið að í lokin þegar leyfisveitingin er annars vegar þó að þeir hafi hvergi komið að ferlinu frá upphafi, gert athugasemdir, lagt inn fyrirspurnir eða annað. Þegar aðili óskar eftir að kæra getur hann gert það á lokastigi máls, eins og ég segi án þess að hafa lögvarða hagsmuni og án þess að hafa gert á fyrri stigum nokkrar athugasemdir við það ferli sem málið hefur farið í. Þetta hlýtur, virðulegi forseti, að kalla á fleiri svör en hægt er að lesa úr nefndaráliti bæði meiri hluta og minni hluta hvers vegna þessi aðferð er valin. Hvað er það í ferlinu hjá okkur, hvað er það í ferli annarra landa sem gerir það að verkum að hér er ákveðið að stíga þessi skref svona miklu stærri og sérkennilegri en virðist vera í öðrum löndum, fyrir utan Portúgal? Eftir því sem fram hefur komið í umræðum hafði Holland farið þá leið sem Ísland, eða umhverfisnefnd nota bene, er að leggja til en horfið frá því.

Ég held að æskilegt væri, virðulegi forseti, að við ræddum þetta kannski ívið frekar og við fengjum fleiri svör en fyrir liggja hvað þetta varðar. Því það er afar mikilvægt og kannski ekki síður mikilvægt í jafnlitlu landi og Ísland er þar sem hagsmunir geta oft og tíðum verulega skarast í ýmsum framkvæmdum og umhverfismálum eða umhverfismati á framkvæmdum o.s.frv. Hagsmunir geta verulega skarast í jafnfámennu landi og við búum á. Það þarf að tryggja aðkomu þeirra sem eiga lögvarða hagsmuni með einum eða öðrum hætti, sem og okkar Íslendinga allra, ég get fallist á það, þó að ekki sé hægt að sýna fram á lögvarða hagsmuni að öðru leyti en því að ég er Íslendingur, að horfa til þess skipulags sem verið er að fjalla um. En að færa þetta, virðulegi forseti, í ljósi fámennis yfir allan heiminn er eitthvað sem erfitt er að átta sig á og hlýtur að vera alger undantekning í íslenskri löggjöf og að því er virðist í löggjöf nágrannalanda.

Virðulegur forseti. Ekki ætla ég hvorki hæstv. umhverfisráðherra né fulltrúum meiri hlutans í umhverfisnefnd að með þessu sé meðvitað verið að fara gegn eða koma í veg fyrir einstaka framkvæmdir. Ég ætla engum sem situr í embætti ráðherra eða sem þingmaður að gera slíkt. Ég kalla hins vegar eftir svörum hvers vegna þessi leið er valin. Á hvaða rökum byggir ráðherra sem leggur fram slíkt frumvarp þá ákvörðun sína? Hvernig leituðu fulltrúar umhverfisnefndar eftir umsögnum eða skoðunum og því hvernig tekist hefur til með fullgildingu Árósasamningsins í öðrum löndum og þeim löndum sem við oftar en ekki viljum bera okkur saman við? Hvernig getur það tengst íslenskum hagsmunum almennt að galopna þetta kæruferli eins og hér er gert? Virðulegur forseti. Svör vantar við slíkum spurningum.

Er þetta þá hugsanlega bara fyrstu skref í framhaldi af breytingum á íslenskri löggjöf? Og hafa menn þá velt því fyrir sér hvort og hvernig slíkt getur þar að auki haft áhrif á dómskerfið? Því að oftar en ekki hafa slík mál síðan farið fyrir dómstóla þar sem aðilar, og þá oft framkvæmdaraðilar, hafa ekki sætt sig við úrskurðarnefndir. Þetta úrskurðarnefndaflóð er svo aftur annar handleggur. Er ekki tímabært að við förum yfir allar þær nefndir sem hafa úrskurðarvald og skoðum þær betur? Er hægt að samnýta þær á einhvern hátt og horfa öðruvísi til verklags? Er eitthvert samhengi í því hvað varðar löggjöfina um hvernig úrskurðarnefndir starfa? Beita þær sömu lagalegum rökum þegar úrskurður er kveðinn upp eða starfa þær hver á sinn hátt eftir því í hvaða málaflokki hvert verksvið hverrar nefndar er?

Það er ýmislegt, virðulegur forseti, sem mér finnst að við þurfum að skoða. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Ég er ósátt við nefndarskipan. Mér finnst asnalegt, svo það sé bara sagt eins og það er, að setja allt í einu inn í þetta frumvarp einhvern umhverfisráðherra þegar óljóst er miðað við það frumvarp sem liggur fyrir um breytingar á lögum um Stjórnarráðið, að til verði innan ríkisstjórnarinnar einhver umhverfisráðherra og verið er í bandormi þess frumvarps, eins og ég sagði áðan, að gelda öll heitin. Þar verður ráðherra en öll sérheiti embættanna eða sérheiti ráðuneytanna falla brott. Þetta er ósk núverandi ríkisstjórnar og núverandi stjórnarflokka að fara í það verkefni. Þess vegna skýtur þetta skökku við og sýnir kannski að menn eru ekki alltaf með samhengi í hlutunum.

Það er tvennt sem vekur furðu, virðulegi forseti. Það er í fyrsta lagi að allur heimurinn hefur nú aðkomu að ákveðnum málum innan skipulagsferlisins á Íslandi. Í öðru lagi erum við á tímum niðurskurðar að auka við um 12–13 millj. kr. Kann að vera lítilfjörlegt í allri hítinni. Það eru samt að jafnaði á ári hverju 12–13 millj. kr. aukning við það sem hér er lagt til. Það er ekki alveg í samræmi við það sem við erum að ræða á öðrum vígstöðvum.