Fullnusta refsinga

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 22:01:49 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

fullnusta refsinga.

727. mál
[22:01]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum um fullnustu refsinga.

Það nýmæli er í þessu frumvarpi að með því er Fangelsismálastofnun gefin heimild til þess að leyfa fanga að ljúka afplánun hluta refsingar utan fangelsis, þ.e. 12 mánaða óskilorðsbundinni fangelsisrefsingu eða lengri, enda hafi hann á sér búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að úrræðið er ætlað til þess að aðlaga fanga að samfélaginu á ný eftir dvöl í fangelsi og er því ekki talin þörf á að það eigi við um dómþola með skemmri refsingu en í 12 mánuði. Þeir sem uppfylla skilyrði þess að dveljast á áfangaheimili Verndar og afplána refsingu undir rafrænu eftirliti í kjölfarið geta því farið þangað allt að átta mánuðum fyrr en áður. Þannig getur sá er situr í fangelsi í 12 mánuði farið 30 dögum fyrr á Vernd og 30 dögum fyrr út úr fangelsi en áður og er þá undir rafrænu eftirliti í 30 daga við lok afplánunar en fer síðan á reynslulausn.

Nefndin fékk athugasemdir um að ekki væri nægilega skýrt kveðið á um að afplánun undir rafrænu eftirliti gæti verið 30 dagar hið minnsta eins og fram kemur í skýringum. Nefndin telur rétt að taka fram að ekki er ætlunin að fram fari eitthvert mat á þessum tíma því að þegar um 12 mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu er að ræða á afplánun undir rafrænu eftirliti að vera 30 dagar. Nefndin leggur því til þá breytingu á frumvarpinu að þetta verði skýrt tekið fram.

Ég ætla ekki að fara mjög náið yfir helstu atriði þessa máls. Ég vil bara geta þess að verið er að boða þá nýjung að fangar geti afplánað hluta refsingar sinnar eins og áður með samfélagsþjónustu en líka með rafrænum búnaði.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki þyki rétt að ákveða fyrir fram hvernig búnaður verður notaður en að um geti verið að ræða rafrænan búnað, ökklaband eða annan viðlíka búnað sem fullnægir skilyrðum ákvæðisins, t.d. farsíma sem búinn er myndavél og staðsetningartæki. Samkvæmt frumvarpinu er það lagt í hendur Fangelsismálastofnunar að ákveða nánar hvers konar búnaður kemur til greina og mæla fyrir um eftirlitið að öðru leyti. Annars staðar á Norðurlöndum er algengast að notast sé við svokölluð ökklabönd en slíkt eftirlit er mjög kostnaðarsamt þar sem tækjabúnaðurinn er mjög dýr og stofnkostnaður því hár. Þá kemur einnig fram í greinargerð það mat fangelsisyfirvalda að í ljósi smæðar samfélagsins og reynslunnar af þeim föngum sem dvelja á Vernd sé unnt að hafa eftirlitið einfaldara hér á landi. Lagt er til að þeir sem fá að nýta úrræðið verði með farsíma með innbyggðum staðsetningarbúnaði og myndavél sem taki lifandi myndir af viðmælanda og sendi til þeirra sem sjá um eftirlitið.

Ég vil fjalla örlítið um þá heimild Fangelsismálastofnunar sem felur í sér að hluti af ólaunuðu samfélagsþjónustunni geti falist í viðtalsmeðferð eða viðurkenndu námskeiði, enda nemi sá hluti aldrei meira en einum fimmta samfélagsþjónustunnar að jafnaði. Í nefndinni kom fram að þessi námskeið þurfi að vera uppbyggjandi fyrir fanga og t.d. til þess fallin að aðstoða við vandamál tengd geðrænum erfiðleikum. Nefndin telur eðlilegt að miðað sé við það að verið sé að vinna að betrun fanga með þessu og undirbúa þátttöku þeirra í samfélaginu og að áhersla verði lögð á að aðstoða fanga við að vinna úr persónulegum vandamálum, t.d. andlegum erfiðleikum, eða aðstoða þá við að leysa úr áfengis- eða fíkniefnavanda.

Nefndin fékk upplýsingar um að annars staðar á Norðurlöndum væri verið að skoða að setja þak á þær sektarfjárhæðir sem unnt er að afplána með samfélagsþjónustu og telur nefndin eðlilegt að það verði skoðað enda óeðlilegt að unnt sé að afplána með ólaunaðri samfélagsþjónustu í tiltölulega stuttan tíma tugmilljóna sektarkröfur.

Ég staldra við þetta vegna þess að ég tel það afar mikilvægt og kannski sérstaklega sú áhersla sem lögð er á betrun fangelsisvistarinnar. Sérstaklega er tiltekið að ef fangar eða brotamenn eiga við áfengis- eða vímuefnavanda að stríða geti hluti af refsingunni verið tekinn út í meðferð við slíku. Ég held að það sé mjög jákvætt. Ég held reyndar líka að hugmyndafræðin á bak við þá breytingu sem hér er boðuð í heild sé mjög jákvæð vegna þess að við erum að stíga skref í þá átt að leggja aukna áherslu á að skila föngum sem betri manneskjum út í samfélagið aftur. Ég held að allir hljóti að geta verið sammála um að til lengri tíma litið sé það mjög jákvætt, ekki bara vegna hamingju þeirra einstaklinga sem þar um ræðir heldur líka vegna þess að það minnkar líkurnar á því að þeir fremji brot að nýju og valdi þar með samfélaginu skaða og kostnaði sem hlýst af fangelsisvist.

Ég held að þetta sé eitthvað sem við eigum að huga að í auknum mæli, sérstaklega þegar um er að ræða mjög unga einstaklinga sem brjóta af sér í fyrsta sinn. Við heyrum reglulega fréttir af ungu fólki sem hefur í dómgreindarleysi og í mjög mörgum tilfellum langt leitt af fíkniefnaneyslu tekið að sér að gerast burðardýr fyrir harðsvíraða glæpamenn sem passa sig á því að vera í bakgrunninum þegar um slíkt framferði er að ræða. Ungmennin eru síðan vistuð í sjö eða átta ár í fangelsi. Ég held að það sé skelfilegt. Ég get ekki ímyndað mér að 18, 19, 20 ára gömul ungmenni bíði þess nokkurn tíma bætur að vera lokuð inni í svo langan tíma. Ég tel miklu eðlilegra að leita annarra leiða, reyna eftir fremsta megni að koma til móts við þarfir þessara ungmenna og endurhæfa þau, t.d. með meðferðarúrræðum sem fælu í sér að þeim yrði gert kleift að leita sér menntunar og vera þátttakendur í samfélaginu en þyrftu kannski að sæta einhvers konar eftirliti eða vikulegum prófum þar sem neysla væri athuguð. Ef þau héldu sig á beinu brautinni væri hægt að hafa þau úti í samfélaginu og reyna eftir fremsta megni að gera þau að þátttakendum.

Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta mál. Ég legg einfaldlega áherslu á það sem ég hef áður sagt, að um er að ræða framfaraskref. Verið er að rýmka reglur um fullnustu dóma utan fangelsa, lögfesta nýtt fullnustuúrræði, þ.e. rafrænt eftirlit með dómþolum sem afplána óskilorðsbundna refsingu, og hækka þá hámarksrefsingu sem unnt er að fullnusta með samfélagsþjónustu.

Undir það nefndarálit sem ég mæli fyrir rituðu auk undirritaðs hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari og Sigurður Kári Kristjánsson, með fyrirvara öll, en jafnframt hv. þm. Mörður Árnason.