Álver í Helguvík

Fimmtudaginn 08. september 2011, kl. 11:04:21 (0)


139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

álver í Helguvík.

[11:04]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get fullyrt að það stendur ekkert upp á stjórnvöld í þessu máli. Þarna er vísað til draga að rammasamningi þar sem menn voru að vinna með hugmyndir um þá stöðu sem gæti komið upp og var fyrir opnum tjöldum, var ekki í neinu baktjaldamakki, ef af því yrði að ríkið kæmi inn í sem meðeigandi að þessu fyrirtæki ásamt sveitarfélögum og lífeyrissjóðum. Þetta vita allir sem fylgdust með fjölmiðlaumræðu á þessum tíma að var raunverulega til umræðu. Drögin að rammasamkomulaginu eins og ég þekkti þau fjölluðu um það. Það er ekki óeðlilegt að menn setji fram einhverja framtíðarsýn með hugsanlegum meðeigendum í fyrirtæki inn í lengri framtíð. Framtíðarsýn þarf ekki að vera til höfuðs nútíðinni. Það er aldrei þannig.

Því er líka haldið fram í þessari blaðagrein að það að samið hafi verið af hálfu HS Orku við kísilverið í Helguvík um orkukaup og hvernig barist var fyrir því verkefni sé enn ein sönnun þess að menn hafi ætlað sér að taka orku frá álverinu í Helguvík. Þetta er heldur ekki rétt og það þarf ekki mikla rannsóknarblaðamennsku til að komast að því. Landsvirkjun er aðili að þessum samningi og á vefsíðu fyrirtækisins segir um þetta samkomulag við kísilverið í Helguvík að í samningnum sé gert ráð fyrir því að Landsvirkjun sinni allri raforkuþörf verksmiðjunnar frá 1. janúar 2016. HS Orka er eingöngu komin þarna að til að brúa bil af því að hún á þá orku til reiðu.

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að í þessari ágætu samantekt í Morgunblaðinu í dag séu dregnar rangar ályktanir af þessum minnisblöðum sem ég held að enginn skammist sín fyrir að líti dagsins ljós. Ef menn ætla að fara að skoða þessi gögn er ekkert óeðlilegt að þeir skoði samhliða þeim lestri fjölmiðlaumræðuna sem átti sér stað.