Frumvarp um Stjórnarráðið

Mánudaginn 12. september 2011, kl. 10:54:08 (0)


139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

frumvarp um Stjórnarráðið.

[10:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Síðar í dag á að ræða frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands sem hefur verið mikið áhugamál hæstv. forsætisráðherra að koma í gegnum Alþingi. Frumvarpið snýr meðal annars að því að auka valdheimildir forsætisráðherra og minnka þannig áhrif þingsins á það hvernig Stjórnarráðið er skipað og hvaða skipulag er á því. Það gengur þvert gegn niðurstöðu hóps þingmanna sem fór yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem komist var að þveröfugri niðurstöðu um að auka ætti, ef eitthvað væri, á heimildir og völd þingsins og takmarka þannig völd framkvæmdarvaldsins.

Nú hefur komið í ljós að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki einu sinni fullan stuðning innan eigin ríkisstjórnar til að koma málinu í gegn.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort það sé ásetningur hennar að troða þessu máli í gegnum Alþingi með góðu eða illu.

Ég spyr líka: Hvers vegna er þessi asi á málinu? Hvað liggur á? Stendur til að breyta einhverjum verkefnum innan Stjórnarráðsins þegar frumvarpið verður samþykkt eða væri kannski rétt að gefa þessu máli gaum þannig að við getum farið yfir það með yfirveguðum hætti?

Ég lýsi því yfir að ég mun aldrei samþykkja mál sem mun minnka valdheimildir þingsins og stöðu þess gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji að hún fari þar eftir áliti þingmannanefndar sem fjallaði um rannsóknarskýrslu Alþingis með því að auka enn frekar valdheimildir sínar og framkvæmdarvaldsins og geti þannig farið fram hjá Alþingi Íslendinga þegar kemur að svo mikilvægu máli sem lög um Stjórnarráð Íslands eru.