Stjórnarráð Íslands

Mánudaginn 12. september 2011, kl. 17:25:38 (0)


139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þótt hér hafi talað pólitískur andstæðingur minn verð ég að viðurkenna að þetta var ákaflega góð ræða. Hún var vel undirbúin, vel uppsett, fræðandi og jafnvel skemmtileg svoleiðis að hún var á margan hátt skólabókardæmi í því hvernig menn ættu að flytja ræður um þingmál. Margt kom þar fram sem mikilvægt er að ræða betur.

Eitt vildi ég þó spyrja út í sem ég varð ekki var við að hv. þingmaður gerði að umtalsefni í ræðu sinni. Það tengist atriði sem töluverð áhersla var lögð á, sumsé að með þessu sé verið að færa vald að miklu leyti frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins. En er ekki líka áhyggjuefni að menn skuli áforma að fjölga verulega pólitískum aðstoðarmönnum ráðherra á kostnað ríkisins til þess væntanlega að gera þeim betur kleift að takast á við stjórnarandstöðu, en koma á sama tíma ekki á nokkurn hátt til móts við stjórnarandstöðuna? Er ekki með þessum hætti enn frekar verið að styrkja stöðu framkvæmdarvaldsins á kostnað löggjafarvalds? Við höfum svo sem séð það undanfarin tvö, þrjú ár að ríkisstjórnin hefur verið ófeimin við að raða inn pólitískum aðstoðarmönnum sem iðulega eru ráðnir til skamms tíma til að komast hjá því að auglýsa störfin. Ég hef ekki tölu á því hversu mörg dæmi eru um slíkt einmitt nú en síðast þegar það var kannað voru tugir slíkra dæma. Það að ráðherrum sé tryggð slík aðstoð þegar þingmenn hafa ekki einu sinni lengur aðstoðarmenn í hlutastarfi eins og áður var, er það ekki líka til þess fallið að styrkja stöðu ríkisstjórnarinnar gagnvart þinginu?