Stjórnarráð Íslands

Mánudaginn 12. september 2011, kl. 22:25:41 (0)


139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég tek undir þessa tillögu og held reyndar að það sé nánast nauðsynlegt að fá fleiri að þessu til að fá heildarmyndina.

Við rekum okkur á það aftur og aftur að ríkisstjórnin er í verkum sínum eins og einhver sem byrjar að byggja hús án þess að vera kominn með teikninguna að því. Hann byrjar á einhverjum milliveggjum og fer svo að mála þá og setja upp hillur og fer eftir það að huga að því að láta teikna húsið og svo jafnvel að steypa upp burðarveggina einhvern tímann seinna, mundi væntanlega byrja á því að smíða þakið ef það væri eðlisfræðilega mögulegt að byrja í lausu lofti. Það sem við verðum einmitt vör við hérna aftur og aftur er að ríkisstjórnin er alltaf í lausu lofti með tillögur sínar. Það vantar tenginguna við önnur mál. Hér á að breyta einhverju afmörkuðu til að færa forsætisráðherra aukið vald. Á sama tíma eru menn einhvers staðar annars staðar að breyta stjórnarskránni eða gera tillögur um það. Hvað ef þær breytingar eru ekki í samræmi við það sem menn ætla að ná fram hér? Það vantar heildarmyndina.