139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir orð hans um Kvikmyndaskóla Íslands. Það er mjög mikilvægt að það verði núna strax, ekki á morgun eða hinn heldur núna strax, farið í að horfa til framtíðar og hvernig á að tryggja að þetta nám fari fram. Það kemur fram hjá hv. þingmanni, sem við þekkjum sem höfum fylgst með, að Ríkisendurskoðun gerði ekki athugasemdir við það hvernig fjármununum var varið. Skólinn þarf hins vegar sannarlega að njóta jafnræðis og sanngirni á við aðra skóla. Vitanlega á það líka við um stjórnendur skólans að þeir þurfa að aðgæta hvað þeir gera með skólann. Það sem þarf að gera núna er að stjórnvöld stígi fram og segi hvernig þau ætla að tryggja þetta nám til framtíðar. Það getur vel verið að það þurfi að leysa það tímabundið eins og hv. þingmaður nefndi og tek ég þá undir með honum að það skuli gert, en á sama tíma þarf að vinna með hagsmunaaðilum að því hvernig best verður tryggt að kvikmyndanám á Íslandi verði áfram í fremstu röð, eins og búið er að margviðurkenna, m.a. með þeim stuðningsyfirlýsingum sem hafa borist erlendis frá.

Ég vona sannarlega, frú forseti, að það verði tryggt að í viðræðum sem vonandi fara fram, ég óska eftir að þær fari fram í dag, að gætt verði sanngirni og að ráðuneytið og framkvæmdarvaldið passi sig á því að ganga ekki það nærri nemendum, kennurum og þeim sem geta komið að því að reka þennan skóla áfram að upp úr sjóði aftur, að upp úr slitni. Það á ekki heldur að þvinga neinn til að taka á sig eitthvað sem er vafasamt að hann ráði við. Þá er betra heima setið en af stað farið. Þetta segi ég vegna þess að maður ber smáótta í brjósti um að það sem muni koma út úr þeim viðræðum sem væntanlega fara af stað verði ekki nógu gott, verði til að setja smáplástur á svöðusár. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að búa við þetta lengur.