Stjórnarráð Íslands

Miðvikudaginn 14. september 2011, kl. 12:21:18 (0)


139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:21]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tel og margir með mér að þegar frá Stjórnarráði Íslands, frá skrifstofum ráðherra í Stjórnarráði Íslands, koma mikilvægar ákvarðanir eigi ríkisstjórn Íslands að standa öll að þeim með einhverjum hætti. Einn af þeim sem telur þetta með mér er hv. þm. Pétur Blöndal, sem hér sagði í umræðum t.d. að það væri óeðlilegt að einn ráðherra, hversu merkilegur og hæstvirtur sem hann er, gæti tekið ákvörðun eins og þá að hefja hvalveiðar á Íslandsmiðum sem getur haft miklar afleiðingar fyrir stöðu Íslands og íslensk utanríkismál. Það verður merkilegt að heyra hvað hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni finnst um þessa skoðun okkar Péturs Blöndals, hvort það sé ekki eðlilegt að við slíka ákvörðun, þessa sem tekin var á sínum tíma eða aðra með svipað vægi, sé fullt samráð við ríkisstjórnina, hvort það væri ekki eðlilegast að hana tæki ríkisstjórnin sjálf í heild. Því miður er ekki stefnt að því með þessu frumvarpi.

Ég hefði viljað ganga lengra í þessu skrefi, hafa þetta skref stærra, og koma á ríkisstjórn sem væri fjölskipað stjórnvald með einhverjum hætti. Það eru til nokkrar gerðir af því. Það var ekki gert en það eru stigin skref í áttina að því. Og einmitt þetta dæmi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi er merkilegt að spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson um vegna þess að hann tók þessa ákvörðun sem Pétur Blöndal gagnrýndi.