Stjórnarráð Íslands

Miðvikudaginn 14. september 2011, kl. 17:00:15 (0)


139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:00]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ítreka þakkir mínar frá í gær fyrir þá tillögu sem hún hefur ásamt hv. 1. flutningsmanni Eygló Harðardóttur og fleirum lagt hér fram. Ég tel í rauninni að það liggi í loftinu að hægt sé að ná samkomulagi um þetta deilumál og leiða það til lykta með því móti sem var lýst í ræðunni á undan.

Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði um það hvert málþóf leiðir en ég vil þó bæta einu atriði við. Við gerum okkur auðvitað alveg ljóst að málþóf af þessu tagi bitnar líka á umræðum um önnur mál. Auðvitað er það til að skapa samningsstöðu, eins og hér hefur verið bent á réttilega, en þegar síðan stíflan fer úr, og við skulum vona að hún geri það fyrr en síðar, hefst hér hin hefðbundna keyrsla vegna þess að tímanum hefur verið sóað í annað. Þá er ekki hægt að ræða ýmis atriði annarra mála eins og þörf hefði verið á.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann í ljósi málflutnings hennar hér: Hver er afstaða hennar til þess sem hér hefur mikið verið rætt um í þingsal að það beri enga brýna nauðsyn til að afgreiða þetta mál, málið sé ófullburða og það megi alveg geyma það fram á næsta þing? Ég heyri að Framsóknarflokkurinn hafi fyrir nokkrum árum þegar talið brýnt að fara í slíkar lagabreytingar en mig langar til að spyrja hver sé afstaða hv. þingmanns til afgreiðslu málsins hér og nú.