Stjórnarráð Íslands

Miðvikudaginn 14. september 2011, kl. 21:38:38 (0)


139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni hugmyndir um að fjölga stórlega aðstoðarmönnum ráðherra. Ég vek athygli á því að það er ýmislegt fleira sem menn þurfa að skoða í þessu samhengi, m.a. það að líka er verið að gera tvær aðrar breytingar sem verður að skoða í samhengi við þetta sem ég nefndi um aðstoðarmennina. Í fyrsta lagi er tekin um það ákvörðun að hverfa frá því sem var í frumvarpinu um hámarksfjölda ráðherra. Nú segir meiri hluti allsherjarnefndar að það hafi verið stjórnarskrárbrot hjá hæstv. forsætisráðherra að setja fram svoleiðis hugmyndir. Í öðru lagi er líka gert ráð fyrir því að það megi skipta upp ráðuneytum. Nú sýnist manni að staðan geti verið sú að þessir 23 aðstoðarmenn geti, a.m.k. teorískt, deilt út á 23 ráðuneyti og 23 ráðherra. Verðum við ekki að skoða þetta mál í þessu samhengi? Með öðrum orðum er verið að fjölga aðstoðarmönnunum, líka til þess að búa í haginn fyrir það að mögulega (Forseti hringir.) kunni að koma til þess að ráðuneytum og ráðherrum verði fjölgað frá því sem nú er.