Stjórnarráð Íslands

Miðvikudaginn 14. september 2011, kl. 21:39:50 (0)


139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög athyglisvert. Þetta kemur með aðeins nýja sýn á þetta mál. Það kann að vera að þetta hangi allt saman, að ríkisstjórnin sé hreinlega búin að gefast upp á því að vera með svona fá ráðuneyti, vilji fjölga aðstoðarmönnum til að geta skipt þeim svo á milli ráðuneytanna aftur eða svona eftir því sem hæstv. forsætisráðherra þóknast eins og ég skil þetta frumvarp.

Það kann líka að vera að ríkisstjórnin sé búin að átta sig á því að velferðarráðuneytið er einfaldlega of stórt, að það þurfi að bæta þar við mannskap til að hæstv. ráðherra komist yfir alla vinnuna, eins ágætur ráðherra og hann er. Það kann að vera að menn séu búnir að átta sig á því að það þarf fleira fólk til að sinna öllum duttlungum ríkisstjórnarinnar.

Ég held þó að málið snúist í rauninni um annað, það sé verið að reyna að auka vald framkvæmdarvaldsins, styrkja framkvæmdarvaldið til að geta enn þá betur ráðið við hið óþekka Alþingi.