Stjórnarráð Íslands

Miðvikudaginn 14. september 2011, kl. 22:03:33 (0)


139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að við hv. þm. Vigdís Hauksdóttir erum algjörlega sammála um að það er óþolandi hvað verið er að fela kostnaðinn við aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það hefur líka komið fram á fundum fjárlaganefndar þar sem forustumenn einstakra ráðuneyta hafa upplýst það að kostnaðurinn við umsóknina skiptir tugum milljóna, eins og hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu um 50–60 milljónir til að dekka þau verkefni sem á að vinna þar. Það er ekki fært á kostnað heldur, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, er fólk látið vinna þetta en kostnaðurinn ekki færður rétt. Það er grafalvarlegt mál.

Mig langar að spyrja hv. þingmann einnar spurningar, af því að hún nefndi að gerðir hefðu verið samningar við stjórnarþingmenn til að ná málinu út úr allsherjarnefnd, þar á meðal um hljóðupptökur sem á að opinbera eftir 30 ár, þar sem hv. þingmaður er löglærð: Er eitthvað því til fyrirstöðu, til að mynda eftir þrjú ár skulum við segja, að ný ríkisstjórn í landinu gæti breytt þessu ákvæði, sagt sem svo að hún vilji breyta þessu (Forseti hringir.) ákvæði í lögunum og opinbera upptökurnar strax, er eitthvað sem kemur í veg fyrir það?