139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseta, sem er reyndur stjórnmála- og félagsmálamaður, ætti að vera ljóst að málin eru í ákveðnum hnút. Eins og staðan er eru tvær leiðir fyrir hendi fyrir hæstv. forseta: Annaðhvort að leysa með einhverjum hætti úr þessum hnút eða berja höfðinu við steininn, jafnvel stinga höfðinu í steininn, [Hlátrasköll í þingsal.] svo notuð sé líking sem orðið hefur fleyg á síðustu dögum. Ég treysti því að hæstv. forseti finni leið til að leysa úr hnútnum frekar en að velja hina leiðina.

Það er auðvitað svo og engin deila um það að fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins sem mikilvægt er að ræða. Ekkert þeirra hygg ég að versni þó að þau verði rædd á morgun ef út í það er farið. En varðandi það mál sem hér er á dagskrá þá er fyrir hendi einhver hnútur í því og hæstv. forseti ætti auðvitað að beita sér fyrir því að það verði einhvern veginn tekið til hliðar á meðan við ræðum þau mál sem við ættum þó að geta komist eitthvað áleiðis með.