139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að á sínum tíma, árið 2007, var með umdeildum hætti breytt lögunum um Stjórnarráð Íslands. Gefin var út heimild til að sameina ráðuneyti með forsetaúrskurði. Þá var ekki gengið eins lagt og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, hvað þá jafnlangt og gert er ráð fyrir í breytingartillögum meiri hluta hv. allsherjarnefndar. Engu að síður var hugmyndum um að sameina mætti ráðuneyti með forsetaúrskurði mætt af mikilli hörku. Þar gengu fremstir í flokki þingmenn VG sem fundu því allt til foráttu en virðast nú engu að síður ætla að standa að frumvarpi þar sem gengið er miklu lengra. Það er alveg augljóst mál að hv. þingmenn hafa skipt um skoðun án þess að hafa gert grein fyrir því hvað hafi valdið stefnubreytingunni (Forseti hringir.) og skoðanaskiptunum.