Lengd þingfundar

Fimmtudaginn 15. september 2011, kl. 11:25:06 (0)


139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég sit sem einn 63 þingmanna og lít á það sem skyldu mína að taka afstöðu til mála, greiða um þau atkvæði. Ég lít svo á að það sé réttur minn líka að fá að greiða atkvæði um mál atkvæði og ég lít svo á að það sé lýðræðisleg skylda okkar að leiða ágreiningsmál til lykta með því að greiða um þau atkvæði.

Varðandi dagskrá þingsins, og það mál sem hefur helst verið til umræðu, breytingar á Stjórnarráði Íslands, þá hef ég fyrir mitt leyti komist að niðurstöðu. Ég hef vegið og metið gögn málsins og er fyrir mitt leyti reiðubúinn að ganga til atkvæða um þetta mál.

Auðvitað vakna áleitnar spurningar þegar maður horfir á þingstörfin og fylgist með þeim, hvort verið sé að vega að þessum rétti mínum, hvort verið sé að hindra mig sem þingmann í að axla skyldur mínar og taka afstöðu til mála. Mér finnst þetta vera spurning sem við verðum öll að spyrja okkur. Hún blasir við.

Varðandi kvöldfundinn þá skulum við bara segja að það blasir greinilega við að ekki eru allir þingmenn komnir á þann stað að þeir séu reiðubúnir að greiða um málið atkvæði og þurfa að tala meira, og þá finnst mér sjálfsagt að leyfa kvöldfund.