Afgreiðsla mála fyrir þinglok

Fimmtudaginn 15. september 2011, kl. 11:52:48 (0)


139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:52]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel að forseti hafi í öllu farið eftir þingsköpum og stjórnað þingfundum samkvæmt því en ég vil leiðrétta það sem sagt var um heiðursmannasamkomulag um að þingsályktunartillaga um staðgöngumæðrun yrði afgreidd á þinginu. Heiðursmannasamkomulagið var um það í heilbrigðisnefnd að málið yrði ekki látið liggja og það yrði afgreitt í nefndinni. Það er heiðursmannasamkomulagið og það vil ég að sé skýrt. Það hefur verið afgreitt í nefndinni, það var meiri hluti fyrir því að afgreiða það með jákvæðum hætti og það gerðu fimm nefndarmenn en fjórir voru á móti og vildu skoða málið betur, eins og nefndarálitin segja til um.

Staðgöngumæðrun er mikilvæg fyrir þá einstaklinga sem þurfa á þeirri þjónustu að halda. Þetta er þverpólitískt mál en er líka mál sem þarf mikla og langa umræðu og ítarlega og ég tel að það væri hneisa (Forseti hringir.) ef við gæfum okkur ekki þann tíma sem þarf á Alþingi til að fara yfir þau álitamál sem tengjast þessu máli. Auðvitað eigum við að ræða það en við þurfum tíma til þess.