Stjórnarráð Íslands

Fimmtudaginn 15. september 2011, kl. 17:48:58 (0)


139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér ræðum við enn þetta mál. Ég vil í fyrsta lagi velta upp við hv. þingmann þeim orðaskiptum sem verða hér stundum en hv. þingmaður hefur verið duglegur að kvarta yfir þeim skætingi sem hann er gjarnan beittur þegar stjórnarliðar koma í andsvör við hann. Getur verið að sú tilfinning mín að stjórnarliðar séu hræddir við umræðuna geri það að verkum að þeir vilja komast sem fyrst í þessa atkvæðagreiðslu sem að sjálfsögðu kemur á endanum?

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann muni eftir því í vor, held ég að það hafi verið, þegar átti að gera breytingar á Stjórnarráðinu og búa til þrjú ný ráðuneyti; innanríkisráðuneyti, velferðarráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti. Það var hins vegar ekki þingmeirihluti fyrir nema tveimur af þessum breytingum. Það var ekki þingmeirihluti fyrir nema velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti.

Miðað við breytingar sem nú á að gera á þessum lögum er rétt skilið hjá mér að hægt sé að gera þetta einhliða (Forseti hringir.) og Alþingi gæti þess vegna ekki haft þau lýðræðislegu áhrif sem það hafði í vor ef þetta færi fram með þessum hætti?