Stjórnarráð Íslands

Fimmtudaginn 15. september 2011, kl. 18:04:12 (0)


139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á mikilvægan þátt, að á sínum tíma var lagt fram frumvarp til breytinga á stjórnarráðslögunum sem fólu í sér sameiningu tiltekinna ráðuneyta. Það var kannski ekki mjög mikill ágreiningur um sameiningu innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins, en staðan var allt önnur um það sem átti að kalla atvinnuvegaráðuneyti. Það var augljóslega ekki pólitískur meiri hluti fyrir þeirri sameiningu á Alþingi. Staðan í stjórnarflokkunum var hins vegar sú að meiri hluti þingmanna þar vildi fara í sameiningu á atvinnuvegaráðuneytinu en minni hlutinn ekki.

Er ekki nokkuð ljóst mál þegar þessi mál eru skoðuð í samhengi að ef það fyrirkomulag sem nú á að taka upp varðandi Stjórnarráðið hefði verið við lýði þegar sú hugmynd var uppi að sameina þrjú ráðuneyti, að þessi minni hluti innan stjórnarmeirihlutans hefði verið brotinn á bak aftur? Er ekki alveg ljóst mál að vegna þess að sameiginleg niðurstaða tókst á milli minni hlutans innan stjórnarmeirihlutans og hins hefðbundna stjórnarandstöðuminnihluta á Alþingi, voru áformin um að sameina í atvinnuvegaráðuneyti brotin á bak aftur? Það er líka miklu lýðræðislegri niðurstaða vegna þess að meiri hluti Alþingis vildi ekki fara þessa leið. Sú leið sem meiri hluti ríkisstjórnarinnar vildi fara hefði nefnilega verið miklu ólýðræðislegri af þeirri ástæðu að á bak við þá niðurstöðu, þó það væri meirihlutaniðurstaða stjórnarmeirihlutans, var það ekki (Forseti hringir.) meirihlutaniðurstaða Alþingis. Þetta finnst mér einmitt vera að kristallast í þessari umræðu, sú lýðræðislega spurning sem hlýtur að vaka yfir umræðunni.