Stjórnarráð Íslands

Fimmtudaginn 15. september 2011, kl. 22:43:55 (0)


139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það sé ágætt að fara hægt og rólega í ákveðnar breytingar eins og hefur verið gert í gegnum tíðina. Ég held að það hafi verið rétt skref að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið á sínum tíma og tel að það hafi verið rétt skref að færa tryggingamálin yfir í félagsmálaráðuneytið. Ég efast hins vegar um það skref sem var tekið að sameina félags-, trygginga- og heilbrigðisráðuneytið í eitt risastórt ráðuneyti en set mig ekki upp á móti þeim breytingum. Þær eru orðnar að veruleika.

Allt þetta er samt hægt að gera undir núverandi fyrirkomulagi og það er líka hægt að styrkja framkvæmdarvaldið. Ég ætla ekki að setja mig í þá stöðu af því að nú er ég í stjórnarandstöðunni að það megi engu breyta. Það er hægt að breyta með núverandi fyrirkomulagi og það hefur verið gert. Alveg eins og það þarf að styrkja löggjafarvaldið þarf ekki síður að styrkja hina faglegu þekkingu innan ráðuneytanna. Þar er hún mjög misjöfn. Ég hef þá reynslu úr menntamálaráðuneytinu að þar er fagleg þekking og færni starfsmanna mjög mikil. Það er yfirgripsmikil þekking á málefnum menningarmála, íþróttamála, menntamála og vísindamála innan ráðuneytisins. Þetta þarf að tryggja að sé til staðar innan allra ráðuneyta og það þarf ekki þetta frumvarp til að svo verði, til að framkvæmdarvaldið geti verið sterkt.

Ég sagði í minni fyrstu ræðu að ég gæti alveg tekið undir það að hið pólitíska vald innan ráðuneytanna gæti verið of veikt. Sérstaklega er voðalega erfitt að vera kannski eini pólitíski starfsmaðurinn, þótt það séu tveir, þegar maður kemur inn í stórt ráðuneyti, 80–90 manna. Það þarf að styrkja það vald. Það er hins vegar ekki forgangsverkefni á þessum tímum því að það kostar að koma inn með aðstoðarmennina. Ég skil þessa hugsun en í dag kostar þessi nálgun of mikið. Þetta er hægt að ræða og ég er sannfærð um að ef menn hefðu aðeins dregið andann djúpt og sagt: Getum við ekki sameinast um að það þarf að styrkja, ekki bara löggjafarvaldið heldur ákveðna þætti Stjórnarráðsins? Allir flokkar hefðu getað náð ágætri lendingu ef menn hefðu gefið sér tíma.