139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að taka þetta mál upp. Við gætum ekki verið meira sammála því að húsnæðisöryggi er grundvöllur þess að velferð fái þrifist hjá fjölskyldum. Það er rétt hjá þingmanninum að félags- og tryggingamálanefnd hefur verið mjög lausnamiðuð í störfum sínum og hefur unnið sem einn maður að hagsmunum skuldugra heimila. Við erum núna búin að kalla til okkar fulltrúa bankanna og óska eftir mati þeirra á stöðunni og hvers er ætlast til af stjórnvöldum því að það hefur oft brunnið við að stjórnvöld hafa ekki fengið upplýsingar fyrr en skaðinn er skeður og þá koma upplýsingarnar í gegnum fjölmiðla. Það er ljóst að til þess að við getum verið með þann viðbúnað sem þarf verðum við að vera með upplýsingar frá þeim sem lána fjármuni og eru að setja heimili fólks á nauðungaruppboð. Þess vegna munum við í félags- og tryggingamálanefnd í áframhaldi af þessari vinnu fá til okkar á morgun umboðsmann skuldara og spyrja hverjir séu vankantarnir á greiðsluaðlöguninni. Við erum þegar byrjuð að smíða lagafrumvarp eða það er að segja breytingar á lögunum til að sníða af agnúa og við vissum svo sem fyrir að væri líklegt að til þess kæmi. Einnig munum við fá til okkar fulltrúa frá Íbúðalánasjóði en í ljós hefur komið að sjóðurinn á þó nokkuð af þessum uppboðsbeiðnum þó að margt af því séu íbúðir verktaka sem eru ekki heimili í dag.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að koma í veg fyrir sem flest nauðungaruppboð og ef nauðungaruppboð eru eina lausnin verður að tryggja húsnæðisöryggi og þá þurfum við líka að tryggja að dómsmálaráðherra sjái til þess að sýslumenn rukki ekki okurleigu af fólki sem er búið (Forseti hringir.) að missa húsnæði sitt.