139. löggjafarþing — 6. fundur,  7. okt. 2010.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þann 2. september var fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um ákvörðun sjávarútvegsráðherra um veiðar á úthafsrækju. Þar lá fyrir lögfræðiálit frá Lex lögmannsstofu, frá Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni, þar sem mjög sterklega er gefið til kynna að ráðherrann hafi brotið lög með ákvörðun sinni og færð fyrir því sterk rök. Fulltrúar ráðuneytisins á þessum fundi lofuðu því að niðurstaða þeirra mundi liggja fyrir þann 7. september um gagnálit á umræddu lögfræðiáliti. Við fengum fund aftur 20. september í sjávarútvegsnefnd og þá kom fram hjá ráðuneytinu að þeir hefðu ekki óskað eftir skriflegu lögfræðiáliti til svara og að þeir hefðu talað við sína lögmenn en ekkert lægi fyrir um afstöðu þeirra.

Í síðustu viku kom síðan álit frá Hafrannsóknastofnun um mjög veika stöðu stofnsins þannig að 7.000 tonna kvótaráðgjöf þeirra er mjög raunsæ og rífleg miðað við stöðu stofnsins.

Það hefur mjög alvarlegar afleiðingar. Vitað er að nú eru stór skip að búa sig til veiða á úthafsrækju, það eru 7.000 tonn sem Hafrannsóknastofnun leggur til að veitt verði en veiðar eru frjálsar. Ef tveir togarar fara á þessar veiðar fara þeir svona 10 túra samtals og þá er búið að veiða helminginn af kvótanum, 3.500 tonn. Það er samdóma álit þeirra sem til þekkja í þessu að það muni rústa miðin og fara algjörlega með þennan stofn. Markaðsmál eru í uppnámi þar sem við erum farin að stunda ósjálfbærar veiðar úr veikum stofni og keppinautar okkar erlendis eru farnir að nýta sér það á markaðnum þar sem þeir hafa umhverfisverndarmerki á sínum veiðum.

Ég spyr hv. þm. Ásmund Einar Daðason sem situr í sjávarútvegsnefnd hvort um það sé sátt hjá Vinstri grænum, hvort það sé í anda sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda sem þeir tala svo mjög fyrir.