139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skuldastöðu heimilanna, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:31]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mótmælin fyrir utan Alþingishúsið á mánudagskvöldið komu illa við okkur öll. Þau snertu mig djúpt og ég held þau hafi snert alla þjóðina. Sem betur fer voru mótmælin að mestu leyti friðsamleg og ég er þakklát fyrir að ekki urðu alvarleg slys á mönnum. Ég skil vel þá reiði og óánægju sem kraumar undir. Ég skil vel að fólk vilji sýna í verki hvernig því líður.

Mótmælin beinast gegn stjórnmálamönnum, Alþingi, ríkisstjórn, stjórnmálaflokkum og valdi almennt.

Mótmælin beinast gegn spillingu, misrétti og mismunun í skuldameðferð innan bankakerfisins.

Mótmælin beinast gegn niðurskurði á fjárlögum, skuldum heimila og fyrirtækja og atvinnuleysi.

Mótmælin beinast gegn meðferð tillagna um ákærur fyrir landsdómi.

Mótmælin beinast gegn fátækt og erfiðum lífskjörum sem m.a. birtast okkur í að allt of margir þurfa að leita á náðir hjálparstofnana og sveitarfélaga um nauðþurftir.

Mótmælin beinast gegn því að okkur stjórnmálamönnum hefur ekki auðnast að vinna saman sem skyldi og við höfum ekki tekið skipulega eða nógu hratt á þeim vanda sem við stöndum andspænis.

Meginatriðið í mínum huga er ekki að hverjum þessara þátta mótmælin beindust, heldur að því að margir eru ósáttir við stöðu mála. Það á sér eðlilegar skýringar. Það er eðlilegt að fólk mótmæli skertum kjörum og aðstæðum þegar afleiðingar hrunsins skella á með fullum þunga. Það er eðlilegt að fólk lengi eftir betri tíð.

Við verðum hins vegar að muna að við Íslendingar siglum í gegnum eina dýpstu efnahagskreppu sem vestrænar þjóðir hafa gengið í gegnum á undanförnum áratugum. Bankakerfið hrundi. Gjaldmiðillinn hrundi og vegið var að fjárhagslegum grundvelli ríkissjóðs, sveitarfélaga, fyrirtækja og flestra heimila. Það er sannarlega sárt að horfa upp á afleiðingar hrunsins á hinn almenna borgara. Margar fjölskyldur búa við óásættanlegar aðstæður vegna atvinnumissis og skuldavanda.

Í upphafi 10. áratugarins gengu Finnar í gegnum mjög djúpa efnahagslægð. Fram að kreppunni sem nú ríður yfir var hún dýpsta efnahagslægðin sem nokkurt iðnvætt ríki hafði gengið í gegnum. Fasteignaverð hrundi, fyrirtæki og einstaklingar voru þjakaðir af skuldabyrðinni og atvinnuleysi rauk upp í næstum 20%. Allt útlit var fyrir að finnska velferðarkerfið yrði gjaldþrota. Það tók Finna mörg ár að rétta úr kútnum. Þegar upp var staðið blasti við sterkara og samkeppnishæfara ríki en fyrir kreppu. Það gefur okkur von og af reynslu þeirra drögum við lærdóm sem getur orðið okkur veganesti.

Flest bendir til þess að okkur muni auðnast betur en Finnum að vinna okkur út úr málum þrátt fyrir að kreppan hér hafi verið alvarlegri og dýpri en í Finnlandi. Þegar fyrri ríkisstjórn mín tók við í febrúar árið 2009 hvarflaði hvorki að mér né öðrum ráðherrum að við ættum létt verk fyrir höndum. Við vissum að viðfangsefnið yrði gríðarlega umfangsmikið og erfitt. Ég vissi að í hönd færu sársaukafullir tímar. Margt hefur sem betur fer tekist vel og jafnvel betur en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir.

Í stefnuræðu minni síðastliðið mánudagskvöld benti ég á mörg atriði sem gefa vísbendingu um að við Íslendingar séum að rétta úr kútnum á undraskömmum tíma. Efnahagsbatinn sem mun koma öllum til góða er nú í augsýn. Það virðist ætla að taka þjóðina skemmri tíma að vinna sig út úr vandanum en spáð var. Okkur virðist ætla að takast að sporna við því mikla atvinnuleysi sem spáð var. Samdrátturinn varð minni en áætlað varð og hjól atvinnulífsins virðast vera farin í gang á ný eins og spár gerðu ráð fyrir. Þessi skref eru einmitt hluti af því að skapaður er grundvöllur fyrir velferðarkerfið sem við viljum búa við. Þetta tvennt verður aldrei slitið úr samhengi enda þótt skrefin á þessari leið séu sár fyrir allt of marga.

Ég fullyrði að ekkert mál hefur verið jafnfyrirferðarmikið hjá ríkisstjórninni og Alþingi og skuldaaðlögun fyrirtækja og einstaklinga undanfarið eitt og hálft ár. Gripið hefur verið til umfangsmikilla aðgerða sem hjálpað hafa þúsundum fjölskyldna og fyrirtækja og grunnur hefur verið lagður að lausnum fyrir flesta. Við töldum að á sínum tíma hefðum við náð utan um vandann og komið til móts við þá sem væru í vanda staddir. Um þessar aðgerðir hefur verið góð og breið samstaða hér í þinginu. Vonir okkar flestra hafa staðið til þess að þær mundu nýtast einstaklingum og fjölskyldum þeirra og fyrirtækjum. Því er ekki að leyna að árangurinn hefur ekki orðið sá sem við væntum. Ég viðurkenni það fúslega. Ýmislegt hefur tafið þessa vegferð. Ég nefni tafir við endurreisn bankanna, dóm um gengisbundin lán, dóm um ábyrgðarmenn þeirra sem fara í skuldaaðlögun og seinagang í afgreiðslu mála í bönkum, m.a. vegna seinagangs hjá hinu opinbera.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin einhendir sér í að leysa bráðavandann sem steðjar að þeim sem eru við það að missa eignir sínar. Við köllum eftir sátt um lausn vandans og samráð hér í þinginu við hagsmunaaðila og banka og lánastofnanir.

Í gær áttu fimm ráðherrar ríkisstjórnarinnar góðan fund með Hagsmunasamtökum heimilanna og á næstu dögum munum við funda með bönkum, lífeyrissjóðum, aðilum vinnumarkaðarins og þeim þingnefndum sem koma að málinu. Fulltrúar Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar hafa einnig komið að þessu borði sem fullgildir og mikilvægir þátttakendur. Ég fagna því sérstaklega.

Það er mikilvægt að greina bráðavandann og umfang hans. Það hefur því miður reynst erfitt að fá haldgóðar tölur um hvað fram undan er varðandi nauðungarsölur á íbúðum. Misvísandi tölur hafa verið í umræðunni. Okkur sýnist að stærðargráðan gæti verið um 230–240 íbúðir, þar sem eigandi á lögheimili, sem að óbreyttu fara í lokasölu í október. Ég endurtek, að óbreyttu. Oft eru uppboðsbeiðnir afturkallaðar á síðustu stundu.

Í vinnslu eru leiðir til að forða uppboðum sem fyrir dyrum standa á lögheimilum einstaklinga sem vinna að lausn sinna mála. Ætlunin er að þessir aðilar fái flýtimeðferð hjá umboðsmanni skuldara og embættið fái afdráttarlausar heimildir til að stöðva nauðungarsölur í slíkum tilvikum.

Nú er unnið að því að hafa samband við þá 230–240 aðila sem standa í þessum sporum og reynt að leita lausna í samráði við þá. Á Íslandi á enginn að þurfa að vera heimilislaus vegna skuldavanda. Það þurfa stjórnvöld, fjármálastofnanir og sveitarfélög að tryggja í sameiningu. Það er von á frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra um viðbrögð við nýföllnum gengislánadómi á næstu dögum þar sem leitast verður við að draga úr óvissu og greiða fyrir úrlausnum á skuldamálum einstaklinga.

Jafnframt vinnur efnahags- og viðskiptaráðherra nú að endurnýjuðu samkomulagi við banka og aðra hagsmunaaðila um sértæka skuldaaðlögun. Gert er ráð fyrir að bönkunum verði gefinn stuttur tími til að vinna úr skuldamálum smærri og meðalstórra fyrirtækja á næstu mánuðum og bankarnir skili þannig til viðskiptavina sinna því svigrúmi sem þeir hafa til að mæta þörfum skuldsettra fyrirtækja.

Með sama hætti þarf að mæta þeim ábendingum sem komið hafa fram um ágalla á skuldaaðlögun einstaklinga og tryggja að með henni verði unnt að veita þúsundum einstaklinga fullnægjandi úrlausnir í bönkum á næstu mánuðum. Við vonumst til að ljúka samkomulagi við alla hlutaðeigandi um þessa þætti í næstu viku.

Ég tel að auk endurbóta á þeim sértæku úrræðum sem nú bjóðast skuldurum sé nauðsynlegt að stjórnvöld skoði vandlega og með opnum huga allar framkomnar hugmyndir og tillögur um almennar aðgerðir til hagsbóta fyrir skuldara, m.a. hugmyndir sem komið hafa fram hér á Alþingi og víðar í samfélaginu eins og t.d. hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna.

Ég minni hins vegar á að vega þarf og meta þau ólíku úrræði heildstætt til að átta sig á því hvaða áhrif þau hafa á þjóðarbúið og viðreisn efnahagslífsins. Ekki má ganga lengra en skynsamlegt getur talist að teknu tilliti til allra þátta málsins.

Ég bendi í þessu sambandi á að leiðin sem Hagsmunasamtökin hafa lagt til mundi kosta 200 milljarða kr. samkvæmt þeirra útreikningum. Þar af mundu um 75 milljarðar falla á lífeyrissjóðina. Það er ljóst að hér þurfa allir aðilar að leggjast á eitt ef árangur á að nást, Alþingi, stjórnvöld, lánastofnanir og Hagsmunasamtök heimilanna.

Grundvöllur þess að aðgerðirnar nái tilætluðum árangri er að víðtæk sátt náist um þær og að lánastofnanir gefi eftir hluta af kröfuréttindum sínum þannig að tryggt verði að bótaábyrgð falli ekki á ríkissjóð vegna þeirra aðgerða sem gripið verður til. En við þurfum líka að horfa lengra fram á veginn og endurskoða húsnæðisstefnuna og við þurfum að styrkja og virkja aðra valkosti en séreignarstefnuna.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur á hverjum tíma unnið af heilum hug að endurreisninni og úrlausn skuldavandans án þess að missa sjónar á heildarmyndinni. Líta verður á hagsmuni þjóðarinnar allrar við lausn þessara mála. Það blasir við að við verðum að ganga saman þessa sársaukafullu vegferð. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að sátt náist í samfélaginu. Það er skylda okkar alþingismanna.