Meðferð einkamála

Fimmtudaginn 07. október 2010, kl. 15:35:49 (0)


139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

meðferð einkamála.

10. mál
[15:35]
Horfa

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Virðulegi forseti. Á þessu þingi hef ég ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins lagt fram tvö frumvörp til breytinga á réttarfarslögunum, þ.e. lögunum um meðferð einkamála. Þessi mál eru ekki flokkspólitísk eða pólitísk í eðli sínu heldur er þeim báðum ætlað að auka gagnsæi í starfsemi Hæstaréttar Íslands og hins vegar að tryggja framgang mikilvægra mála í dómskerfinu. Annað málið mælir fyrir um það að dómsmál sem varða gengistryggingu lána, um lán sem bundin eru verðtryggingu, vaxtaútreikning og uppgjör slíkra lána og aðra samningsskilmála skuli hljóta flýtimeðferð, skilyrðislausa flýtimeðferð í dómskerfinu. Hitt málið sem ég mæli fyrir núna, sem er frumvarp um breytingu á lögum um meðferð einkamála, mælir fyrir um það með hvaða hætti dómarar við Hæstarétt Íslands skuli standa að því að semja hæstaréttardóma og hvernig staðið skuli að birtingu þeirra. Ásamt mér flytja þetta mál hv. þingmenn Ólöf Nordal, Birgir Ármannsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jón Gunnarsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Pétur H. Blöndal.

Virðulegi forseti. Í samfélaginu hefur verið uppi rík krafa um aukið gagnsæi í störfum helstu valdastofnana samfélagsins og sú krafa hefur magnast á síðustu missirum ekki síst í kjölfar þess að rannsóknarnefnd Alþingis birti skýrslu sína. Með frumvarpi þessu er reynt að koma til móts við þá kröfu að því er dóma Hæstaréttar Íslands varðar. Samkvæmt núverandi skipan kemur fram í dómum Hæstaréttar Íslands hvaða dómarar við réttinn hafa dæmt í málum hverju sinni. Að undanskildum sératkvæðum dómara við dómsniðurstöður bera dómar Hæstaréttar Íslands hins vegar ekki með sér hver þeirra dómara samdi dóminn. Með frumvarpinu er úr þessu ógagnsæi bætt og lagt til að í dómum Hæstaréttar verði birt hvaða dómari við réttinn semur dóm hverju sinni, dómarar staðfesti atkvæði sín skriflega og þeim heimilað að gera skriflegar athugasemdir við dómsforsendur telji þeir ástæður til.

Með breytingunni eykst gagnsæi í dómstörfum við Hæstarétt Íslands og þeim sem dómana lesa verður gert kleift að kynna sér hvaða dómari samdi dóm hverju sinni auk þess sem viðhorf einstakra dómara til sakarefnis máls hverju sinni verða aðgengilegri en þau eru nú. Þá eykur meira gagnsæi aðhald þeirra sem utan réttarins standa gagnvart dómurum Hæstaréttar og veitir þeim betra tækifæri til þess að tjá sig um og greina dómsniðurstöður. Auk þess verður að ætla að breytingin stuðli að því að auka persónulega ábyrgð einstakra dómara á dómsniðurstöðu. Einnig má gera ráð fyrir að textar í dómum verði skýrari þar sem ekki verður jafnrík ástæða og nú til að bræða saman í texta dóma sjónarmið einstakra dómara en slíkt er stundum til þess fallið að gera merkinguna óskýra. Má finna augljós dæmi úr sögu réttarins um slíkt. Nærtækt dæmi sem má nefna í því sambandi er dómur Hæstaréttar frá 19. desember árið 2000 í máli nr. 125/2000, Tryggingastofnun ríkisins gegn Öryrkjabandalagi Íslands, sem í daglegu tali er nefnt öryrkjadómurinn. Forsendur og niðurstöður Hæstaréttar Íslands í því máli þóttu svo óljósar og óskýrar að þáverandi forseti Alþingis skrifaði forseta Hæstaréttar bréf til þess að fá útskýringar á því frá réttinum hvað í dómi hans fælist. Jafnframt var skipuð sérstök nefnd sem var falið það hlutverk að greina dóminn og þýðingu hans.

Samkvæmt núgildandi lögum mælir 1.–3. málslið 2. mgr. 165. gr. laganna um meðferð einkamála fyrir um að dómarar skuli strax eftir dómtöku máls ræða með sér fyrir luktum dyrum röksemdir og niðurstöðu dóms. Fyrir málflutning skal forseti dómsins fela einum dómara á þeim fundi að hafa framsögu en forseti stýri þar ráðagerðum, beri fram spurningar, stuðli að því að álit hvers dómara komi þar sem skýrast fram og telji atkvæði þeirra. Þá mælir ákvæðið svo fyrir að afl atkvæða ráði úrslitum dómsmáls. Ekki er lagt til að á þessu verði gerð breyting með því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir.

Með frumvarpi þessu er hins vegar lagt til að í stað 4. og 5. málslið 2. mgr. 165. gr. laganna komi sex nýir málsliðir þar sem lögð er til breyting á núgildandi skipan varðandi það með hvaða hætti hæstaréttardómarar skuli standa að því að semja hæstaréttardóma og hvernig staðið skuli að birtingu þeirra.

Í 4. og 5. málslið 2. mgr. 165. gr. gildandi laga er mælt fyrir um að forseti dómsins skuli að lokinni umræðu fela frummælanda úr röðum dómara að semja atkvæði að dómi. Þá segir að greinist dómarar í meiri og minni hluta semji frummælandi atkvæði fyrir þann hluta sem hann heyrir til, en hinir dómararnir ákveði hver þeirra semji atkvæði þeirra.

Í stað þess fyrirkomulags sem núgildandi málsliðir mæla fyrir um er í fyrsta lagi lagt til að ef meiri hluti dómara er fyrir röksemdum og niðurstöðum frummælanda skuli hann semja atkvæði að dómi. Sé frummælandi hins vegar í minni hluta skuli þeir dómarar sem mynda meiri hluta ákveða hver þeirra skuli semja atkvæði að dómi. Dómarar skuli þá staðfesta atkvæði sitt skriflega og eftir atvikum með athugasemdum við forsendur. Þeir dómarar sem ekki eru sammála meiri hluta dómara skila sératkvæði.

Í annan stað mælir frumvarpið fyrir um að við birtingu dóma skuli koma fram hvaða dómari hafi samið dómsatkvæði þegar fleiri en einn eiga aðild að því. Atkvæði annarra dómara skuli einnig birt ásamt forsendum þeirra fyrir niðurstöðu sinni.

Eftir sem áður gerir frumvarpið ráð fyrir að dómari sem greiðir atkvæði með ómerkingu héraðsdóms eða frávísun máls og verður í minni hluta verði einnig að greiða atkvæði um efni máls og dómara skuli ganga í sameiningu frá dómi með eða án sératkvæða. Því er ekki lögð til breyting á 6. og 7. málslið núverandi 2. mgr. 165. gr.

Verði núgildandi skipan, með hvaða hætti dómarar við Hæstarétt Íslands skuli standa að því að semja hæstaréttardóma og hvernig staðið skuli að birtingu þeirra, breytt með þeim hætti sem frumvarp þetta mælir fyrir um verður hún færð nær því sem tíðkast m.a. hjá hæstarétti Noregs, hæstarétti Bandaríkjanna og hjá Mannréttindadómstól Evrópu.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að það taki gildi um leið og það hefur verið samþykkt sem lög frá Alþingi.

Ljóst er samkvæmt efni frumvarpsins að það leiðir ekki til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Hér er einungis um að ræða breytt vinnulag við það hvernig standa skuli að því að semja hæstaréttardómana og hvernig staðið skuli að birtingu þeirra. Og eins og áður segir verður það þannig, verði frumvarpið að lögum, að almenningi og þeim sem rýna í hæstaréttardómana sjálfa og vilja kynna sér efni þeirra verður gert betur kleift að komast að niðurstöðu um viðhorf hvers og eins dómara til þess sakarefnis sem til umfjöllunar er hjá réttinum hverju sinni.

Eins og heyra má af þessari framsögu er ekki um pólitískt mál að ræða. Hér er einungis um tæknilegt úrlausnarefni að ræða sem ég hygg og vona að Alþingi taki til efnislegrar meðferðar og samþykki vonandi. Ég held að það verði okkur öllum til framdráttar og ekki síst þeim sem láta sig dómsmál varða og vilja kynnast því hvað fer fram innan dómstóla á Íslandi.