Stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013

Þriðjudaginn 12. október 2010, kl. 16:56:35 (0)


139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:56]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013. Ég hef aðeins blandað mér í þá umræðu, m.a. í andsvari við hæstv. ráðherra, og ætla ekki að endurtaka það samtal. Þó vík ég kannski aðeins að þeim atriðum sem við ræddum áðan.

Ég sagði í andsvari við hæstv. ráðherra að mér þætti þetta plagg marklaust. Ég tók það líka sérstaklega fram að ég meinti það ekki illa gagnvart hæstv. ráðherra sem ég veit að hefur lagt sig fram við gerð þessarar byggðaáætlunar. Það sem ég átti við og hef nú tækifæri til að skýra í örlítið lengra máli en í stuttu andsvari, var að á sama tíma og hæstv. ráðherra getur ekki með nokkurri sanngirni ætlast til að við tökum ekki mið af umræðunni og ástandinu sem er í samfélaginu í dag, það er það sem við erum öll upptekin af í augnablikinu því að það er ákall úti um allt land til okkar um að standa vörð um byggðir landsins. Síðan komum við hér og ræðum byggðaáætlun og þá er ekki í boði, eins og krakkarnir segja, fyrir ráðherra að segja: Þetta snýr að hæstv. heilbrigðisráðherra og varðar ákvarðanir á málasviði hans, þess vegna vil ég ræða um það sem stendur í þessu plaggi.

En hvert er markmiðið með plagginu? Í plagginu um stefnumótandi byggðaáætlun segir, með leyfi forseta að:

„bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum, efla menntun, menningu, samfélög og samkeppnishæfni byggða og bæja landsins með margvíslegum aðgerðum.“

Það er meginmarkmiðið. Hæstv. ráðherra talar mikið um yfirsýn og vísar til Sóknaráætlunar 20/20 um að þá fyrst verðum við með góða yfirsýn yfir verkefnið, að verklagið sé gott og ágætt og mikilvægt og að svona vinnum við best að verkefninu. Það getur vel verið, ef við hefðum alveg allan þann tíma til 2020 til þess að vinna byggðaáætlun og koma í veg fyrir að byggðirnar lendi í vandræðum, þá væri þetta eflaust mjög gott.

Á sama tíma og ég vísaði í fund sem við áttum, þingmenn Suðurkjördæmis, í gær varðandi málefni heilbrigðisstofnananna í kjördæminu, ágætisfund með öllum þingmönnum, ráðherra, talsmönnum landshlutasamtakanna, sveitarstjórnarmönnum og heilbrigðisstofnununum. Þar spurði ég hæstv. heilbrigðisráðherra að því hvort einhver áætlun um áhrif á byggðaþróun hefði verið lögð til grundvallar þessari ákvörðun. Við ræðum hér einmitt tæki ríkisstjórnarinnar og stefnu til að styrkja byggð í landinu til þess að snúa við neikvæðri byggðaþróun. Þess vegna verður að horfa á öll þessi atriði í samhengi. En það er ekki svo að ég hafi sagt að átak til eflingar ferðaþjónustu væri slæmt eða einhver einstök verkefni sem þarna eru tiltekin, eins og hæstv. ráðherra gerði mér upp í andsvari áðan, það er fjarri lagi.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún hafi gert athugasemd við það í ríkisstjórn eða í þingflokki Samfylkingarinnar þegar ákvörðunin um breytingar á heilbrigðisstofnunum, sem eru jú á málasviði hæstv. heilbrigðisráðherra eins og hæstv. ráðherra bendir á, var tekin og spurt hvort til grundvallar ákvörðuninni lægi áætlun um áhrif breytinganna á byggðaþróun. Var það einhvern tímann rætt í tengslum við þessa stóru ákvörðun? Eins og við ræddum áðan á byggðaáætlunin að ríma við almenna stefnu í atvinnu- og efnahagsmálum og þetta er svo sannarlega það.

Ef það hefur ekki verið gert virðist manni að verið sé að gefa með annarri og taka með hinni vegna þess að 700 milljónir í ferðamennsku, aukið framlag til ferðaþjónustunnar, kemur okkur öllum vel hvar sem við búum. Þar aukum við tekjur og hagvöxt og það er jú mjög mikilvægt í þessu samhengi. Það er ekki hægt að tala um það sem einstakt byggðamál eða lið í einhverri stórri áætlun ef þeir sem eiga að sinna þessum ágætu ferðamönnum úti um allt land eru fluttir í bæinn vegna þess að búið er að loka öllu á svæðinu. Það verður að skoðast í því samhengi. Ég veit að hæstv. ráðherra á ættir að rekja til Húsavíkur, hún hefur sagt mér það. Þetta hlýtur að vera henni áhyggjuefni.

Annað sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um snertir rammalöggjöf um ívilnanir sem sett var á þingi í fyrr á þessu ári, ef mig misminnir ekki. Það er nefnt sem liður í þessari byggðaáætlun. Markmiðið er að gera ívilnanir vegna erlendra nýfjárfestinga gagnsærri og efla og bæta samkeppnisstöðu Íslands sem fjárfestingarkosts. Gott og vel.

Við hæstv. ráðherra höfum rætt þessi mál oft og ítrekað og erum kannski ekki alltaf sammála um hvernig þessar ívilnanir eiga að vera. Ég hef lýst því sem skoðun minni að ég teldi betra að hafa kerfið almennt og eins fyrir alla en ég skil þó vel og set mig ekki á móti því að verið sé að reyna að draga að erlenda fjárfesta.

Á borgarafundi í Stapa síðastliðinn fimmtudag voru kynnt ýmis verkefni sem eru í burðarliðnum á Suðurnesjum — þetta snertir kannski ekki byggðaáætlun beinlínis, en ég misnota aðstöðu mína fyrst ég hef ráðherrann tiltækan — þar á meðal kísilverksmiðja sem fyrirhugað er að reisa í Helguvík. Fundurinn snerist um að rætt var og reynt að útskýra hvað stæði þessum verkefnum öllum fyrir þrifum, hvað tefði þau. Fram kom í máli forsvarsmanna þessa fyrirtækis að það sem tefði verkefnin væri útgáfa reglugerða í iðnaðarráðuneytinu í tengslum við rammalöggjöf, fyrirtækið væri í þeirri stöðu að það lenti á milli laga. Ekki var búið að gera fjárfestingarsamning við fyrirtækið þegar löggjöfinni var breytt og nú þarf fyrirtækið að bíða eftir því að reglugerðunum verði hespað af í ráðuneytinu. Því vildi ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvað líði því verki og hvetja hana til að hespa því af vegna þess að það er mikilvægt að koma atvinnulífinu suður frá í gang.

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að leggja mat á hvort byggðaáætlunin er betur eða verr unnin en byggðaáætlanir í gegnum tíðina. Það sem ég vil segja hér og hef áhyggjur af er að það er ekki nóg þrátt fyrir góðan vilja að leggja fram áætlun eftir áætlun á meðan verkefnin sem við horfum á á hverjum einasta degi og það sterka ákall sem við heyrum nú utan af landi sé virt að vettugi af því að það passar ekki inn í áætlunina. Þetta verður að fara saman. Það er athugasemd mín og leiðsögn til hæstv. iðnaðarráðherra. Ég hvet ráðherrann til þess að óska eftir því að unnin verði áætlun með hraði um áhrif breytinganna á heilbrigðissviði á byggðaþróun á landsbyggðinni.