Meðferð einkamála

Miðvikudaginn 13. október 2010, kl. 17:36:41 (0)


139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

meðferð einkamála.

20. mál
[17:36]
Horfa

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir öðru af tveimur frumvörpum sem ég hef lagt fram á Alþingi ásamt fleiri hv. þingmönnum þar sem mælt er fyrir um breytingu á réttarfarslögunum, þ.e. lögum um meðferð einkamála.

Þetta mál er í eðli sínu ekki pólitískt heldur lýtur það fyrst og fremst að tæknilegu úrlausnarefni í réttarfarslöggjöfinni sem hefur það að markmiði að tryggja að dómsmál sem hafa mikla þjóðfélagslega þýðingu fyrir allan almenning, stjórnvöld og fjármálakerfið fái hraða meðferð í gegnum dómskerfið vegna mikilvægis þeirra. Meðflutningsmenn mínir á þessu máli eru allir hv. þingmenn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Með frumvarpinu er lagt til að við 1. mgr. 123. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/ 1991, bætist nýr málsliður sem mælir fyrir um það að dómsmál þar sem deilt er um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við verðlag eða við gengi gjaldmiðla og um skilmála slíkra skuldbindinga, svo sem um vexti, skuli sæta flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laganna, en sá kafli fjallar um flýtimeðferð einkamála fyrir dómstólum.

Núgildandi ákvæði 123. gr. laga um meðferð einkamála mælir fyrir um að hyggist aðili höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu og það færi ella eftir almennum reglum laganna geti aðili málsins óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð ef brýn þörf er á skjótri úrlausn, enda hafi dómsniðurstaðan almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni hans.

Í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands, í málum Óskars Sindra Atlasonar gegn SP-Fjármögnun hf. og Sigurðar Pálmasonar gegn Lýsingu hf., þar sem gengistrygging lána var annars vegar dæmd ólögmæt og hins vegar þar sem rétturinn í öðrum dómsmálum ákvarðaði vaxtaútreikning við endurreikning þeirra hefur risið upp ágreiningur um fordæmisgildi dómanna og áhrif þeirra á ýmis álitamál tengd niðurstöðum Hæstaréttar. Nægir þar að nefna ágreining um hvort dómarnir hafi þýðingu varðandi gengistryggð húsnæðislán, gengistryggð lán til fyrirtækja og fleiri álitamál. Þá hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra boðað aðgerðir ríkisstjórnarinnar og lagt fram frumvarp sem ætlað er að bregðast við niðurstöðum Hæstaréttar. Að mati fræðimanna á sviði lögfræði er ekki ólíklegt að samþykkt þess frumvarps kunni að leiða til réttarágreinings fyrir dómstólum.

Eins og alþjóð veit höfðu þessir dómar sem vörðuðu lögmæti gengistryggðu lánanna og skilmála þeirra lána gríðarlega þjóðfélagslega þýðingu. Það sem ég er að leggja til ásamt öðrum hv. meðflutningsmönnum er að slík mál hljóti flýtimeðferð í dómskerfinu, skilyrðislausa flýtimeðferð.

Í því sambandi vil ég nefna að þann 21. september sl. birtist áhugaverð frétt í Fréttablaðinu sem ekki hefur farið mikið fyrir. Samkvæmt henni kemur fram að ríkið geti hugsanlega orðið skaðabótaskylt setji það lög um gengistryggð lán þar sem lögleg lán í erlendri mynt verða færð í krónur. Þetta kom fram í erindi sem dósent í lögum hélt við Háskóla Íslands. Í fréttinni segir að hann vilji að stjórnvöld reyni að ná samkomulagi við lánafyrirtækin. Mig langar til að fara aðeins yfir þessa frétt í tengslum við það frumvarp sem ég mæli hér fyrir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld gætu bakað sér skaðabótaábyrgð verði boðað frumvarp, sem ætlað er að jafna stöðu þeirra sem tekið hafa gengistryggð lán, að lögum, segir dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Hann varar við slíkri lagasetningu og hvetur til þess að stjórnvöld reyni að ná samkomulagi við lánafyrirtækin um lausn málsins.“

Síðan er vísað til þess sem dósentinn segir, með leyfi forseta:

„„Það er fyrir hendi virkur réttarágreiningur um hvort ýmis af þeim lánum sem veitt voru í aðdraganda hrunsins voru í íslenskum krónum eða erlendum gjaldeyri, og það er hlutverk dómstóla, ekki stjórnvalda, að leysa úr þeim ágreiningi,“ sagði Benedikt Bogason, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, á opnum fundi um dóm Hæstaréttar í málaferlum vegna gengistryggðra lána.

Hæstiréttur hefur komist að því að óheimilt hafi verið að gengistryggja lán í íslenskum krónum. Benedikt benti á að ekki væri þar með sagt að ólögmætt væri að veita lán sem sannarlega séu alfarið í erlendri mynt.“

Þá segir í fréttinni, með leyfi forseta:

„„Eignarréttur er friðhelgur samkvæmt stjórnarskrá, og setji stjórnvöld lög þar sem eignir eru rýrðar getur það bakað ríkinu skaðabótaábyrgð,“ sagði Benedikt. Stjórnvöld hafa tilkynnt að ætlunin sé að setja lög þar sem staða einstaklinga með gengistryggð lán sé jöfnuð, burt séð frá ákvæðum hvers lánasamnings.

Þar sem ágreiningur er um samninga njóta báðir aðilar þess réttar að skjóta ágreiningnum til dómstóla, sagði Benedikt. „Ef niðurstaðan er sú að einhver af þessum fjölmörgu lánasamningum […] er með réttu talinn umsamin lán í erlendum myntum, þá vaknar sú spurning hvort það að gera slík lán ólögmæt brjóti í bága við stjórnarskrána,“ sagði Benedikt.

Með því að færa lögmætt erlent lán í íslenskar krónur frá þeim tíma sem það var tekið er verið að lækka höfuðstólinn verulega. Það getur varla talist annað en veruleg eignaskerðing, segir Benedikt. Slíkt geti bakað stjórnvöldum skaðabótaskyldu.“

Síðan er haft eftir dósentinum, með leyfi forseta:

„Þannig yrði niðurfærslan ekki í boði erlendra kröfuhafa heldur í boði ríkisins. Ríkissjóður þyrfti þá að axla byrðarnar af þessu og bæta það tjón sem af þessu hlytist.“

Í fréttinni er síðan haft eftir Benedikt Bogasyni að hann telji leiðina út úr þessum vanda vera þá að stjórnvöld næðu bindandi samkomulagi við lánafyrirtæki um hvernig að fara eigi með þessi lán en mikilvægt sé að gera það frekar en að setja lög til að koma í veg fyrir málaferli og skaðabótakröfu síðar.

Virðulegi forseti. Eins og áður segir, og kemur fram í þessari frétt, og hefur komið fram í erindi lögfræðingsins Benedikts Bogasonar, er allt eins viðbúið að látið verði reyna á þau álitaefni sem hér hafa verið nefnd og eftir atvikum önnur álitamál sem tengjast gengis- eða verðtryggingu lána fyrir dómstólum. Slík niðurstaða dómstóla og dómsmála mun augljóslega hafa almenna þýðingu og varða stórfellda hagsmuni fyrir einstaklinga, fyrirtæki og fjármálastofnanir.

Að mínu mati er mikilvægt að álitaefni sem risið hafa í kjölfar dóma Hæstaréttar um gengistryggð lán hljóti skjóta úrlausn í dómskerfinu leiði sá ágreiningur sem uppi er til þess að látið verði á hann reyna fyrir dómstólum. Til að tryggja hraða málsmeðferð þeirra álitamála sem hér hafa verið nefnd og varða með einum eða öðrum hætti réttaráhrif dóma Hæstaréttar, um ólögmæti gengistryggðra lána og álitaefni þeim tengd, er lagt til í frumvarpinu að slík mál sem dómstólar fá til meðferðar fái skilyrðislausa flýtimeðferð innan dómskerfisins samkvæmt lögum um meðferð einkamála. Gera má ráð fyrir því að sá ágreiningur sem upp kann að koma, og tengist gengis- eða verðtryggingu lána og skilmálum slíkra skuldbindinga, verði til lykta leiddur fyrir 1. janúar 2012. Því er lagt til að sú sértæka málsmeðferðarregla, sem lagt er til með frumvarpinu að verði lögfest, falli úr gildi eigi síðar en 1. janúar 2012. Hér er því í raun lagt til að inn í lögin um meðferð einkamála verði felld tímabundin regla sem mælir fyrir um skilyrðislausa flýtimeðferð mála þar sem deilt er um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við verðlag eða við gengi erlendra gjaldmiðla og um skilmála slíkra skuldbindinga, svo sem um vexti.

Við vitum, virðulegi forseti, að uppi er ágreiningur um hvert fordæmisgildi gengisdóma Hæstaréttar er, t.d. varðandi gengistryggð húsnæðislán og sömuleiðis varðandi gengistryggð lán sem lögaðilar eða fyrirtæki hafa tekið. Náist ekki samningar segir það sig sjálft, í ljósi þeirrar gríðarlegu hagsmuna sem í húfi eru, að það er mikilvægt að gangi slíkur ágreiningur til dómstóla fáist niðurstaða þeirra mála bæði hratt og vel. Ekki ætti að vera ástæða til að gera neinn pólitískan ágreining um mikilvægi þess heldur er þetta, eins og ég sagði í upphafi, fyrst og fremst tæknilegt úrlausnarefni sem hefur það að markmiði að hraða slíkum málum í gegnum dómskerfið.

Frumvarpið sem ég mæli fyrir var reyndar lagt fram á síðasta löggjafarþingi, 138. löggjafarþingi, en því miður fékkst það ekki afgreitt þá og er því endurflutt. Ég lagði á það verulega mikla áherslu áður en Alþingi fór í sumarleyfi síðasta sumar að þetta mál yrði afgreitt sem lög frá Alþingi til að tryggja að þau mál sem þá voru inni í dómskerfinu og vörðuðu lögmæti gengistryggðra lána hlytu skilyrðislausa flýtimeðferð. Um þá kröfu mína spunnust nokkuð miklar umræður á þinginu sem bæði hæstv. forsætisráðherra og þáverandi hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra, Ragna Árnadóttir, tóku þátt í. Niðurstaða þeirra varðandi þetta álitaefni varð sú að hæstv. ráðherrar boðuðu að sett yrði á fót nefnd sem átti að fá það verkefni að fara yfir málið og leggja fram og útbúa tillögur til að tryggja flýtimeðferð þeirra mála sem ég hef fjallað um í gegnum dómskerfið. En því miður hefur ekkert til þessarar nefndar spurst né heldur hefur hún, hafi hún á annað borð verið skipuð, skilað af sér einhverjum niðurstöðum. Þess vegna er þetta frumvarp flutt.

Frá því að það kom fyrst fram hafa engar efnislegar athugasemdir verið gerðar við frumvarpið heldur voru það einhver önnur sjónarmið sem lágu því að baki að þeir sem stjórna málum á Alþingi, sem eru auðvitað ríkisstjórnarflokkarnir, vildu ekki að málið yrði tekið á dagskrá og það klárað fyrir sumarleyfi. En núna stöndum við sem sagt enn í sömu sporunum og við stóðum í fyrir sumarleyfi hvað þessi mál snertir.

Ég vil geta þess sérstaklega að ekki verður annað sagt en að Hæstiréttur Íslands hafi sjálfur tekið undir þau sjónarmið sem liggja að baki frumvarpinu. Hæstiréttur ákvað að veita þeim málum sem ég hef nefnt, og getið er um í greinargerð með frumvarpinu, þ.e. málum Óskars Sindra Atlasonar gegn SP-fjármögnun og Sigurðar Pálmasonar gegn Lýsingu hf., flýtimeðferð fyrir Hæstarétti. Og þetta eru, fyrir þá sem ekki þekkja, þessi stóru og miklu dómsmál þar sem gengistrygging lána var dæmd ólögmæt, þeim var veitt flýtimeðferð fyrir Hæstarétti. Vandinn er hins vegar sá að það má efast mjög um að Hæstiréttur hafi haft skýra lagaheimild til að veita þessum málum flýtimeðferð þó svo að rétturinn hafi gert það. Það gengur auðvitað ekki að þegar mál eins og þessi, sem hafa gríðarlega mikla þjóðhagslega þýðingu, koma á borð Hæstaréttar Íslands að uppi sé einhver vafi um hvort rétturinn hafi að lögum heimild til að veita þeim flýtimeðferð og taka þau fram fyrir önnur mál á málaskrá Hæstaréttar. Ég hygg að ég sé ekki einn um þau sjónarmið sem ég hef farið yfir vegna þess að fjöldi lögmanna hefur opinberlega lýst þeirri skoðun sinni að því megi halda fram að þar hafi Hæstiréttur — hvað eigum við að segja — dansað á línunni. Í ljósi þess hljóta menn að líta til þess að Hæstiréttur hefur veitt þessum málum flýtimeðferð en það er mikilvægt að taka undir þau sjónarmið sem í því felast og tryggja að rétturinn hafi skýra og ótvíræða lagaheimild til að veita þessum málum flýtimeðferð komi þau til hans kasta.

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í upphafi máls míns er þetta mál þess eðlis að þingmenn ættu ekki að fara í pólitískar skotgrafir þegar þeir taka afstöðu til þess hvort samþykkja beri frumvarpið eða veita því framgang á þinginu. Nú er mikið talað um samstöðu og samráð og menn hittast á fundum hingað og þangað um bæinn til að bera saman bækur sínar um ýmis mikilvæg þjóðfélagsmál, og þetta er eitt af þeim málum. Það blasir við að þjóðin hefur gríðarlega mikla hagsmuni af því að mál sem snúa að gengistryggingu lána og skilmálum þeirra að öðru leyti fáist afgreidd hratt og örugglega í dómskerfinu. Ég bind því vonir við að þeir sem tala sem mest um samstöðu og samráð taki nú undir það frumvarp sem ég mæli fyrir og ég geri mér vonir um að þetta flýtimeðferðarmál fái sérstaka flýtimeðferð í gegnum þingið vegna þess að hagsmunirnir eru augljósir, sama hvar í flokki menn standa. Það er engum til góðs að svona mikilvæg ágreiningsefni dagi uppi í dómskerfinu og hljóti þar ekki skjóta úrlausn. Það er heldur engum til góðs að uppi sé einhver vafi um að Hæstiréttur Íslands hafi að lögum heimildir til að veita málum sem mikla þýðingu hafa fyrir alla alþýðu manna og fyrir ríkisvaldið til að veita slíkum málum forgang umfram önnur innan dómskerfisins.

Virðulegi forseti. Ég vonast til að þingmenn geti sammælst um að þetta mál fái skjóta og örugga afgreiðslu innan þingsins og sé ekki að neitt ætti að vera því til fyrirstöðu. Ég legg til að málið gangi til 2. umr. og allsherjarnefndar.