Sala sjávarafla o.fl.

Fimmtudaginn 14. október 2010, kl. 15:11:10 (0)


139. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2010.

sala sjávarafla o.fl.

50. mál
[15:11]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að skoða þetta frumvarp mjög gaumgæfilega og þær tillögur sem koma þar fram. Það hefur um nokkuð langan tíma verið krafa sjómanna og uppi um það háværar raddir víða í þjóðfélaginu og sérstaklega úti um land að við ættum að reyna að komast út úr þessum erfiðleikum okkar með því að veiða meira, sjórinn sé fullur af fiski víða kringum landið, allir firðir og flóar séu fullir af fiski og við gætum leyft okkur að ganga á fiskstofnana tímabundið til að komast yfir þessa erfiðleika.

Ég tek nú ekki undir það. Ég held að við verðum þrátt fyrir að nú sé hart í ári að fara að ráðum fiskifræðinga okkar og ganga ekki á stofnana. Ekki frekar en við göngum á útsæðið í landbúnaði, það kemur niður á okkur síðar. Hitt er annað mál að ég held að það sé rétt að líta til sjávarútvegsins sem stórrar iðngreinar og möguleika okkar á að fá miklu meira út úr þeirri grein en við gerum nú. Ég lít svo á að við sem þjóð höfum verið allt of mikið í hráefnisútflutningi í sjávarútvegi. Við höfum ekki haft trú á því að við gætum unnið meira úr fiskafurðum okkar og verið með vöruþróun o.s.frv. Í þeim efnum má líka segja að gengismálin hafi nokkuð oft verið okkur andsnúin, sérstaklega á þessum þenslutíma. Þá var nú ekki burðugt fyrir fyrirtæki að reyna að finna upp nýjar greinar til að fara í frekari útflutning og þróa vörur til manneldis meira en gert hefur verið. En núna eru mjög hagstæð skilyrði til að fara í frekari útflutning og huga að þróun. Þess vegna tel ég að eigi að horfa á þetta upp á nýtt og skoða með hvaða hætti við getum stuðlað að því að hér verði unnið meira úr hráefninu en gert hefur verið.

Það er eðlilegt að þeir sem stunda fiskveiðar horfi fyrst og fremst til þess hvar þeir fá hæsta verðið. Ef það er svo að það borgi sig fyrir útgerðina að flytja út óunninn fisk og þannig fái útgerðin hæsta verð fyrir fiskinn þá hugsar hver um sig, en ef við horfum á það í heild er ekki verið að horfa til þjóðarhags. Þess vegna er líka umhugsunarefni fyrir okkur þegar við fáum fréttir eins og um daginn í upphafi „makrílstríðsins“ við Breta um að upp hefðu komið hugmyndir í Skotlandi um að rétt væri að sýna okkur í tvo heimana og loka hreinlega breskum höfnum fyrir íslenska flotanum. Þetta hefði ekki verið hefndargjöf fyrir okkur, það hefði komið enn verr niður á Bretum sjálfum þar sem ljóst var að íslenskur fiskur, sem sé hráefnið, heldur uppi atvinnu í Aberdeen. Bíddu, ef það eru 6, 7, 8 þúsund Bretar eða fleiri, þetta hljóp á þúsundum, sem hafa atvinnu af því að fullvinna fiskinn okkar, hráefnið, eigum við þá ekki að horfa til þess hvort ekki sé hægt að vinna það meira heima og skapa atvinnu?

Eins og þetta er nú eiga minni fiskvinnslur, sem ekki eru með útgerð, erfitt í samkeppninni um hráefnið, um verðið. Eins er líka ankannalegt þegar við förum út í fiskbúð, sama hvar hún er á landinu, ég tala nú ekki um á höfuðborgarsvæðinu þar sem það er orðið lúxus að kaupa sér ferskan fisk. Af hverju er verðið á nýjum fiski svona hátt, meira að segja á heilum fiski, ekki flökuðum heldur heilum? Jú, það er vegna þess að innlendi markaðurinn er í raun og veru að keppa við verðið sem er á uppboðsmörkuðunum erlendis. Ég hef heyrt þær skoðanir viðraðar að hægt væri að hugsa sér strandveiðarnar sem við gáfum frjálsar núna í sumar þannig, hvort sem það væru þær eða hluti aflans af skipunum, að aflinn yrði settur á innlendan markað og bara eyrnamerktur íslenskum neytendum. Þannig mundum við líka hugsa til þess að stuðla að því með núverandi kerfi að neytendur, þeir sem fara út í fiskbúð, fengju ekki vöruna á eins uppsprengdu verði og þeir fá í dag þegar viðmiðunin gæti verið önnur en hún er.

Ég vildi eingöngu koma þessum skoðunum að með sérstakri hvatningu til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um að skoða þetta og reyna að meta hvort ekki sé kominn tími til að horfa frekar en gert hefur verið á þetta sem heildstæða atvinnugrein sem er rekin og nýtir stofna með sjálfbærum hætti og tryggir til langs tíma hámarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina, eins og kemur fram í 1. gr. frumvarpsins sem yrði þá 1. gr. laganna. Ég tel að það sé mikilvægt. Núna þurfum við að hugsa um atvinnusköpun. Ég tel að eins og sjávarútvegur hefur verið stóriðja okkar geti hann verið það áfram en með öðrum hætti en verið hefur.