Auglýsingastjóri og dagskrárráð Ríkisútvarpsins

Mánudaginn 18. október 2010, kl. 17:15:57 (0)


139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

auglýsingastjóri og dagskrárráð Ríkisútvarpsins.

34. mál
[17:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að hér var alls ekki ætlunin að ræða mannkosti einstaklinga. Ég vildi bara koma svari Ríkisútvarpsins ohf. til skila. (Gripið fram í.) Já, ég vildi bara koma svarinu til skila en ég legg áherslu á að það sem skiptir máli er að við erum að endurskoða þjónustusamninginn og reyna að skerpa þessi skil.

Hv. þingmaður ræðir um að Ríkisútvarpið ohf. sé nokkurn veginn sjálfstætt. Auðvitað skiptir miklu máli að fjölmiðlar í almannaeigu séu sjálfstæðir en ég vil þó minna hv. þingmann á að þar er þingkjörin stjórn sem ber ábyrgð á rekstri fjölmiðilsins og hefur þar miklum og ríkum skyldum að gegna. Ég vil líka minna á það stjórnskipulag og kannski er ástæða til að ræða það sérstaklega, jafnvel í lengri umræðu í þinginu, hvernig okkur þykir til hafa tekist með þetta rekstrarfyrirkomulag, stjórnarfyrirkomulag og annað.