Aðgengi að bekkjarskólum á framhaldsskólastigi

Mánudaginn 18. október 2010, kl. 17:53:37 (0)


139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

aðgengi að bekkjarskólum á framhaldsskólastigi.

37. mál
[17:53]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er virkilega spennandi og mér finnst mjög spennandi að hæstv. menntamálaráðherra talar um að við viljum að allir nemendur fái nám við hæfi. Það er nú einu sinni þannig að sumum nemendum hentar jafnvel betur að vera í bekkjarskóla, kannski ekki síst þeim sem þurfa skýran ramma og mig langar til að taka aðeins annan vinkil á málið.

Ég held nefnilega að við megum alveg snúa dæminu við og hugsa um það að bekkjarskólarnir, sem geta valið nemendur inn, og hafa því miður margir tekið þá ákvörðun að miða fyrst og fremst við háar einkunnir — það væri verulega ögrandi og skemmtilegt verkefni fyrir þessa skóla að þeir mundu hugsa þetta út frá því að skipuleggja nám fyrir alla og nýta þannig fjölbreytni mannflórunnar. Viðmiðið væri ekki eingöngu hæstu einkunnirnar heldur sem allra skemmtilegust (Forseti hringir.) og fjölbreyttust mannflóra þannig að við stöndum undir því nafni að allir framhaldsskólar landsins (Forseti hringir.) séu skólar fyrir alla.