Fjárhagsstaða sveitarfélaganna

Þriðjudaginn 19. október 2010, kl. 16:31:18 (0)


139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjárhagsstaða sveitarfélaganna.

[16:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér fer fram mikilvæg umræða. Það er ánægjulegt og mikilvægt að það skuli hafa komið fram hversu vel sveitarfélögin hafa staðið sig frá því að efnahagsáföllin dundu yfir. Það er mikilvægt að ríkisvaldið geri sér grein fyrir því að þau tóku strax á sínum málum og gera það enn. Eins og fram kom hefðum við betur tekið öðruvísi á málum í þessum sal.

Við megum heldur ekki gleyma því að sveitarfélögin hafa sjaldan gegnt jafnmikilvægu hlutverki til þess að láta samfélagið ganga og það gerir í dag. Þá á ég bæði við atvinnulega og félagslega. Við þekkjum mörg hver lagaskylduna sem hvílir á sveitarfélögunum varðandi félagsþjónustu þeirra auk annarra þjónustu. Þessi verkefni fara ekki frá sveitarfélögunum þegar kreppir að, þau aukast frekar en hitt. Því er mikilvægt að sveitarfélögunum sé veitt það svigrúm sem þau telja sig þurfa til þess að geta áfram veitt þessa mikilvægu þjónustu.

Þá kem ég að því sem ég vildi benda hæstv. ráðherra á. Við hljótum að þurfa að taka til skoðunar á Alþingi hvort við þurfum að veita sveitarfélögunum í gegnum lagasetningu eða með öðrum hætti, hugsanlega er nóg að gera það í gegnum reglugerðir í ráðuneytum, svigrúm til þess að breyta þjónustunni. Ég nefni sem dæmi hið sívinsæla grunnskólamál. Það þarf að breyta því með einhverjum hætti til þess að þau geti brugðist við. Við verðum að svara því hvort við erum til í að fara þessa leið. Það getur verið að það borgi sig fyrir samfélagið að stytta grunnskólann um einhverja daga til þess að sveitarfélögin spari kostnað. Við vitum líka að það hefur áhrif á þá sem þar starfa. Á endanum getur það orðið niðurstaða sem allir geta sætt sig við til þess að sveitarfélögin geti haldið þjónustunni sem fólkið gerir kröfu um.