Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar

Miðvikudaginn 20. október 2010, kl. 18:59:19 (0)


139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[18:59]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, vinnunni er ekki lokið enda var það í rauninni ekki markmið þessa hóps að með því að skila af sér skýrslunni yrðu einhver endalok á þessu ferli, heldur var þetta eitt skref á leiðinni eins og ég hef margítrekað fyrr í þessari umræðu.

Sáttin við þjóðina náðist að mínu mati eins og ég rökstuddi áðan með því að langflestir, yfirgnæfandi meiri hluti fulltrúa þjóðarinnar sem sátu í þessum hópi, fulltrúar verkafólks, sjómanna, smábátaeigenda, jarðeigenda, sveitarfélaga og stjórnmálaflokka, náðu saman um þær tillögur sem lagðar eru fram. Því vil ég meina að víðtæk sátt hafi tekist um meginlínur við stjórn fiskveiða, hvernig við viljum sjá skipan fiskveiðistjórnar í framtíðinni.

Vissulega er ekki farið í smáatriði í öllum tillögunum, enda var það ekki markmiðið. Markmiðið var að reyna að ná utan um þá hugmyndafræði sem felst í þessum gögnum, skýrslunni, um breytta skipan mála. Það tókst að megninu til. Ég tel og ítreka að við eigum að halda þessari vinnu áfram og byggja á gögnunum í skýrslunni, það er skynsamlegasta leiðin. Það er það sem til var ætlast í upphafi og þannig munum við geta staðið við fyrirheit flokkanna um að ná sem víðtækastri sátt um þetta mál.